Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:37]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn hv. þingmanni spurninguna. Það er auðvitað mjög mikilvægt að stíga strax markviss skref, eins og kemur fram í máli hv. þingmanns, til að nýta þau tækifæri sem eru fyrir hendi. Að minni beiðni var unnin sérstök skýrsla af sérfræðingum Landbúnaðarháskólans um það hvernig við gætum eflt kornrækt með markvissum aðgerðum. Þær tillögur sem lagðar eru til í skýrslunni eru fjármagnaðar í þessari fjármálaáætlun, þar sem gert er ráð fyrir 2 milljörðum kr. á tímabilinu til að byggja upp innviði kornræktar, fjárfesta í plöntukynbótum o.s.frv. Fyrstu skrefin hafa þegar verið stigin, en í síðustu viku undirritaði ég samkomulag við Landbúnaðarháskólann um að hefja innleiðingu á nýrri tækni við plöntukynbætur sem munu gjörbreyta þeim tíma sem það tekur að aðlaga nytjajurtir á borð við bygg og hveiti að íslenskum aðstæðum. Vegna þessara skrefa mun sá tími koma innan 10–15 ára að við munum geta keypt íslenskt brauðhveiti af íslenskum kornbændum. Með þessu erum við að taka skref í þá átt að tryggja að innlendur landbúnaður geti í raun brauðfætt okkur þegar fram í sækir.

Þetta eru raunar stór þáttaskil í samtímasögu landbúnaðarins. Þessi áform mæta helstu áskorunum sem að okkur steðja í málefnum fæðuöryggis og stuðla auk þess að auknum tækifærum til fjölbreyttrar atvinnu í dreifbýli. Þá hef ég reyndar líka heyrt, sem er hv. þingmanni örugglega til gleði, að sunnlenskir bændur stefni að því að halda stofnfund á nýju kornsamlagi í lok þessa mánaðar og ég fagna sérstaklega þeim áformum. Því er mikið að gerast í þessu verkefni og ég tel að þarna séum við að stíga mikilvæg skref, bæði í átt til aukinnar áherslu á hringrásarkerfi og þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en síðast en ekki síst til að auka hér fæðuöryggi.