153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég ætla að fara yfir í sjávarútveginn þrátt fyrir að ráðherra hafi ekki sagt það hvernig ætlunin er að draga svona mikið úr, ekki bara með kornrækt — það er ekki nóg.

Það er mjög ánægjulegt að sjá að setja eigi aukið fjármagn til eftirlits og rannsókna, nokkuð sem hefur verið þrýst mikið á og virkilega þarf að gera. Þetta eru alls 5,2 milljarðar til þessara tveggja mála. Ég ætla algerlega að undanskilja lagareldið, það er alveg sér, og tala bara um sjávarútveginn eins og við þekkjum hann. Út þetta tímabil á samtals að veita 5,2 milljörðum, til 2028. Mikil þörf er á þessu og ég vona að hæstv. ráðherra eigi einnig í samtali við kollega sinn í dómsmálaráðuneytinu til að tryggja að eftirlitshlutverk Landhelgisgæslunnar þegar kemur að sjávarútvegi verði líka fjármagnað.

Nýleg könnun segir að 83% landsmanna telji að auðlindagjald í sjávarútvegi eigi að vera hærra. En það er líka athyglisvert í þessari könnun að kjósendur Sjálfstæðisflokksins, og að einhverju leyti Framsóknarflokksins, skera sig úr þegar kemur að þessu. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar ráðherra að fjármagna auknar rannsóknir og eftirlit þegar samstarfsflokkar ráðherrans í ríkisstjórn hafa staðið fast gegn hækkun á veiðigjaldi og jafnvel lækkað veiðigjaldið í tíma þessarar ríkisstjórnar? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að ná í þessa 5,2 milljarða?