Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:00]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið og fyrirspurnina. Uppvask er ekki litrík samlíking en í það minnsta erum við að eiga við eilífðarmál. Sumt er hins vegar þess eðlis að við þurfum að klára það til að komast á næsta stað. Loftgæðin er nokkuð sem er, að mér finnst, stærra mál en við kannski oft ræðum. Það er rétt að þegar kemur að rafbílum þá erum við kannski nr. tvö í heiminum en þegar kemur að stærri bílunum þá eigum við mikið verk óunnið; þó að við séum nr. tvö eða þrjú varðandi rafbílana, ég er ekki búinn að sjá nýjustu tölur með það. En síðan erum við eftir með skipin og flugvélarnar og verksmiðjurnar o.s.frv. Og Ísland er ekkert Disneyland því að þar eru engar náttúruvár, en ég er líka svolítið upptekinn af þeim málaflokki sem tengist þessu öllu saman.

Hv. þingmaður spyr um draslaraganginn og þar er ég alveg sammála hv. þingmanni, það ætti að vera auðvelt verk fyrir okkur að ganga í. Ég hef verið upptekinn af þessu og flutt frumvarp hér, sem er ekki í stjórnarsáttmála heldur bara gamalt þingmannafrumvarp sem ég var með, um að taka harðar á þeim málum þannig að hægt sé að sekta fólk, og það viti af því, ef það hendir drasli úti í náttúrunni. Af því ég var nú bara að koma úr Skaftártungu og var að keyra þar þá bregður manni þegar maður sér ýmislegt rusl sem fólk hendir. Ástæðan fyrir þingmáli mínu var einfaldlega þessi: Ég var að keyra vestur í Bandaríkjunum í Kaliforníu og sá að allt var svo ótrúlega hreint við þjóðveginn. Þá sá ég einmitt skilti þar sem hótað var háum fjársektum ef menn myndu henda einhverju. Alla vega virtist það virka þar, í það minnsta var draslinu ekki fyrir að fara. Það kostar að henda, það er bara spurning hver borgar. Vilja menn að skattgreiðendur greiði þann kostnað þegar einhver annar hendir rusli eða á að reiða sig á sjálfboðaliða? Sem betur fer hirða sjálfboðaliðar rusl og ég veit að (Forseti hringir.) hv. þingmaður er partur af þeim sem eru harðduglegir við að tína upp drasl, en það er ekki hægt að stóla á slík góð verk endalaust.