Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:17]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Náttúruvernd og allt sem tengist henni, svo sem friðanir og friðlýsingar, rekstur friðlýstra svæða, uppbygging innviða og vernd líffræðilegs fjölbreytileika heyrir undir ráðuneyti hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og þá tvo málaflokka af fimm á málefnasviði 17, um umhverfismál.

Í lögum um náttúruvernd frá árinu 2013 er kveðið á um gerð náttúruminjaskrár og skal ráðherra gefa hana út og leggja fram á Alþingi. Eigi sjaldnar en á fimm ára fresti skal sérstök þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár um friðlýsingar og friðun, svokallaður B-hluti skrárinnar, lagður fram. Með samþykkt slíkrar framkvæmdaáætlunar hefur Alþingi ákveðið að setja ákveðnar náttúruminjar í forgang sem skulu njóta friðunar eða friðlýsingar. A-hluti náttúruminjaskrár eru þá þegar friðlýstar náttúruminjar.

Í þeirri fjármálaáætlun sem við ræðum nú kemur fram að unnið sé að gerð tillagna vegna þessarar framkvæmdaáætlunar, B-hlutans. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað þessari vinnu líði og hvenær við megum vænta þess að fyrsta framkvæmdaáætlunin verði lögð fram hér á Alþingi. Telur hæstv. ráðherra að fyrir liggi nægt fjármagn á grundvelli þessarar fjármálaáætlunar til framfylgdar því verkefni. Til grundvallar vali svæða eða annarra náttúruminja í svokallaðan C-hluta náttúruminjaskrár skal liggja mat á verndargildi þeirra og verndarþörf og þegar verndargildi er metið skal m.a. leggja áherslu á auðgi, fjölbreytni, fágæti, stærð svæða og samfellu, upprunaleika, vísindalegt, menningarlegt, fagurfræðilegt og táknrænt gildi.

Í bráðabirgðaákvæði náttúruverndarlaga segir að ráðherra skuli láta endurskoða ákvæði gildandi friðlýsinga og eftir atvikum endurmeta verndargildi þeirra minja sem standa á gildandi náttúruminjaskrá. Skal að því stefnt að verkinu verði lokið eigi síðar en í árslok 2021.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað líður þessari vinnu?