Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:31]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir skýr og greinargóð og heiðarleg svör. Ég myndi kannski bara vilja árétta áhuga minn á að fá fram svar við þessari skriflegu fyrirspurn sem ég lagði fram til hans í febrúarmánuði um tiltekin markmið varðandi kolefnishlutleysi fyrir Ísland árið 2040. Ég spurði hann líka út í hagræðingaraðgerðir vegna þess verðbólguástands sem við erum í núna af því að það er talað um að fjármálaáætlun sé veigamikið verkfæri til að ná árangri þar. Mér hefur fundist sérstakt að hlýða á ráðherra hér í dag sem fjalla nánast ekkert um sitt hlutverk í því. Það er eins og fjármálaráðherra eigi einn að stuðla að þessu. Ég ætla þá líka að gangast við því að ég hef svo sannarlega gagnrýnt hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hann sé ekki að stíga þau skref sem til þurfi til þess að ríkisfjármálin geti stutt við Seðlabankann í þessari baráttu við verðbólguna. Ég spurði hæstv. viðskiptaráðherra einmitt að því hér fyrr í dag hvaða augum hún liti þessa þungu gagnrýni sem kemur úr öllum áttum, vil ég leyfa mér að segja. Hún kemur frá fjármálaráði, frá Samtökum atvinnulífsins og við höfum heyrt þetta svo víða, ASÍ talar um að sé ekki verið að verja heimilin fyrir áhrifum verðbólgunnar. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, því að hann er flokksbróðir fjármálaráðherra, hvaða augum hann lítur þessa gagnrýni. Hefur hann áhyggjur af henni þegar hún er svona mikil og þung og kemur úr öllum áttum? (Forseti hringir.) Hún er öll um það að fjármálaráðherra sé ekki líklegur til að ná árangri í baráttunni við verðbólguna miðað við þau litlu skref sem hann er tilbúinn að stíga.