Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:43]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessi svör og ætla að vinda mér aðeins í það að nefna þessa fjölmiðlaumræðu sem hefur verið nokkuð fyrirferðarmikil hér. Menn eru mikið að tala í einföldum lausnum, við gerum það sjálfsagt öll: Tökum bara RÚV af auglýsingamarkaði, þá lagast staðan hjá einkareknum miðlum. Hæstv. ráðherra benti á dæmi frá Frakklandi og Spáni, sem tiltekin voru í skýrslunni sem kom út 2018, þar sem þetta var gert. Auglýsingafé streymdi ekki yfir til einkareknu miðlanna, gerði það tímabundið í öðru landinu en það gekk svo til baka. Ef við ætlum að gera þetta, og ég held að það sé nauðsynlegt að fara svolítið vel ofan í það, þá er ekki sama hvernig það er gert, líka út frá því að samhliða erum við með lögbundnar skyldur á Ríkisútvarpinu og við erum með þjónustusamning við það þar sem gert er ráð fyrir ákveðinni starfsemi sem þarf þá mögulega að skala niður ef menn ætla ekki að bæta Ríkisútvarpinu upp það fjármagn sem fer frá því. Ég er þeirrar skoðunar að við komumst ekkert hjá því að skoða þetta mjög gaumgæfilega og það er ekkert sem segir að Ríkisútvarpið þurfi að vera eins um aldur og ævi, en það þarf að vanda vel til verka.

Mig langaði þá kannski að spyrja hæstv. ráðherra: Ef Ríkisútvarpið verður tekið af auglýsingamarkaði að hluta, miðum við að það minnki um helming, þá vantar milljarð inn í Ríkisútvarpið, ætla menn að bæta Ríkisútvarpinu það eftir einhverjum öðrum leiðum? Eða þurfa menn að fara í niðurskurð? Það yrði nokkuð blóðugur niðurskurður miðað við hina almennu aðhaldskröfu sem gerð er á stofnanir samfélagsins. Síðan er það annað varðandi fjölmiðlana. Mér finnst það sjálfum ekkert sérstaklega skemmtilegt að vera að tala um opinbert fé í beina styrki til fjölmiðla en ég tel að það sé engu að síður nauðsynlegt. Það eru margir vankantar á því. Einn er kannski sá að þessu hættir til að vaxa út í hið óendanlega. Þá þurfum við alltaf að vera vakandi fyrir því að leita leiða til að lækka þennan útgjaldapóst. (Forseti hringir.) En svo er það hitt að það vill kannski enginn fjölmiðill bíta í höndina sem fæðir hann og það færir okkur að umræðunni um fjarlægðina frá ríkisvaldinu til fjölmiðla. Þá langar mig að minna á að þingmenn hafa talað um það í gegnum tíðina, í samhengi við (Forseti hringir.) fréttaflutning fjölmiðla, Ríkisútvarpsins, að það gæti komið til athugunar þegar menn eru að ákvarða fjármagnið. Það væri fínt að fá svör við þessum spurningum.