Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta kjarnaviðfangsefni, þ.e. hvernig við nýtum þetta blandaða kerfi og fáum það til að vinna saman þannig að það komi ekki niður á þeirri þriðja stigs þjónustu sem lögbundið er að fari fram á sjúkrahúsunum tveimur, eftir atvikum á Akureyri og á Landspítala, og nýtum svo alla aðra afkastagetu. Það er uppsöfnuð þörf, m.a. eftir liðskiptaaðgerðum, og við höfum ekki náð að anna þessu. Til að koma þessum biðtíma í eðlilegt horf þá verðum við að nýta alla getuna í kerfinu. Þetta er mjög gott dæmi og kjarnar svolítið það verkefni að láta ábyrgðina ganga í báðar áttir og horfast í augu við það að sérfræðingarnir okkar geti unnið utan spítalans samhliða því að vera inni á spítalanum. Þannig hefur það oft verið leyst. Ég fæ ekki séð annað en að það verði bara að vera þannig og ábyrgðin verði að ganga í báðar áttir. Ég hef séð það gerast með mjög góðum hætti eins og við sáum t.d. í faraldrinum, þegar einkaaðilarnir stukku inn á spítalann og unnu með. Við sjáum það líka í myndgreiningarþjónustunni að einkaaðilar koma inn og styðja við inni á spítölunum.

Í liðskiptaaðgerðunum eru þrír staðir, á Akureyri, Akranesi og Landspítalanum, sem hafa verið að gera liðskipti. En uppsafnaða þörfin er svo mikil að ég held að við þurfum að fara að horfa á þetta sem lýðheilsuaðgerð. Sama höfum við gert varðandi kvenheilsu og endómetríósu. Þar er sérfræðingur sem er ekki inni á spítalanum, en hins vegar erum við með teymi inni á spítalanum. Þessi sérfræðingur og teymið þurfa að vinna saman. Í sumum tilvikum á sú aðgerð við sem er framkvæmd á Klíníkinni af þessum sérfræðingi, í öðrum tilvikum teymið á Landspítala. Ég held að við verðum að fara að horfa á aukna samvinnu og blandað kerfi, láta það vinna saman.