Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

940. mál
[22:10]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugavert mál og mér fannst rétt að staldra aðeins við það. Ég efast ekki um að þessi ákvæði séu sett af góðum hug til að tryggja vinnuvernd og allt það en hins vegar hefur maður nokkrar áhyggjur af þessu vegna þess að það er jafnvel verið að setja talsverðar kröfur á smáfyrirtæki. Ef það er svo, eru þá engin neðri mörk á því, hæstv. ráðherra, hvað varðar fjölda starfsmanna hjá viðkomandi fyrirtæki sem þarf að halda sérstaklega tölvuskrá utan um? Ég segi þetta vegna þess að ég þekki nú til margra smáfyrirtækja starfa minna vegna og það er talsvert að reka og halda utan um hinar ýmsu kröfur hjá smáfyrirtækjum. Það er kannski ekki hægt að setja það í einhverja deild í stórfyrirtæki. Þannig að það þarf að horfa virkilega til aðgerða til að auðvelda rekstur smáfyrirtækja. Svona frumvarp sem er sett fram af góðum hug má ekki verða kannski lággróðrinum fjötur um fót. En auðvitað finnst mér stundum, ég segi það enn og aftur, t.d. hér þegar við vorum að ræða lággróðurinn og smáfiskana í útgerð, að það er einhvern veginn öllu dembt af sama þunga á þá og hina stóru. Ég vil bara minna hæstv. ráðherra á það og fá þá nánari upplýsingar um að það sé hugað að smáfyrirtækjunum af því að þau eru virkilega mikilvæg í þjóðlífinu og við eigum miklu frekar að greiða götu þeirra heldur en að vera að leggja á þau auknar byrðar ef hægt er að komast hjá því.