Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[23:07]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg fallist á að það hefði þurft dýpra samtal um það sem er í gangi. Það sem ég tel að geti verið orsökin fyrir þessu er að hæstv. ráðherra sé of einangraður með sínu liði í ráðuneytinu í stað þess að taka umræðuna víðar. Þegar maður fær það framan í sig hvað eftir annað í andsvörum að hún sé ekki í neinu samtali við Landssamband smábátaeigenda þá tel ég að þetta vandræðamál sem er komið hér, og þingflokkur Vinstri grænna situr uppi með að styðja, hefði ekki komið til ef menn hefðu farið í dýpri umræðu og fengið víðari sjónarmið. Nema þá hitt, ég er stundum farinn að efast um það, sem hv. þingmaður trúir, að hæstv. ráðherra vilji eitthvað auka þennan félagslega þátt. Vissulega flutti þingflokkurinn hér þingsályktunartillögu á haustdögum, allur sem einn að undanskildum ráðherrum, um að þau vildu auka félagslega pottinn í 8,3%. En sú tillaga virðist hafa dagað uppi og hefur ekkert verið hér til umræðu meira. Nú erum við stödd í seinni hluta apríl og það er ekki kominn neinn botn í strandveiðarnar enn þá. Svo horfa menn líka upp á það að sveigjanleiki er varla til staðar þegar komið er að strandveiðunum og smáseiðunum í útgerð. En það er uppi allt annað sjónarmið þegar komið er að þeim stóru sem eru jafnvel komnir upp fyrir kvótaþakið. Þá er eins og að það sé ekki verið að herða það neitt. Þannig að ég er farinn að efast um það að hæstv. ráðherra vilji eitthvað auka þennan félagslega þátt í raun og sann (Forseti hringir.) af því að hún hefur notað sín tækifæri og sín frumvörp miklu frekar til að herða kvótahnútinn í stað þess að losa um hann.