Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[23:12]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við allar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða er mikilvægt að hafa það grundvallarstef í huga að líta ber á sjávarauðlindina sem sameiginlega og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Í íslenska aflamarkskerfinu, eins og það er skilgreint í lögum um stjórn fiskveiða, felst takmörkun á þessum rétti þjóðarinnar þar sem aflaheimildum er úthlutað með hætti sem færir fáum aðilum langvarandi eignarráð yfir sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og heimild til ráðstöfunar á þeim. Engu að síður er núverandi kerfi það sem íslenska þjóðin býr við og mikilvægt að gæta þess að öll lagasetning byggist á þeim raunveruleika sem núverandi lagaumhverfi býður upp á.

Í frumvarpinu er lagt til að aflahlutdeild í grásleppu verði afmörkuð nánar. Mál þetta hefur áður verið til meðferðar og var m.a. á 151. löggjafarþingi en varð ekki útrætt þar. Á 152. löggjafarþingi voru felld út ákvæði er varða hlutdeildarsetningu grásleppu þegar flutt var frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem sneri að veiðistjórn sandkola og hryggleysingja. Þegar væntingar eru til þess að slík kvótasetning kunni að fara fram skapar það hvata til kappveiða þar sem veiðimenn keppast við að ná veiðireynslu sem verði grundvöllur til kvótaúthlutunar. Slíkt er afar óheppilegt, bæði fyrir sjómenn sem leggja á sig aukna vinnu og aukna slysahættu og einnig fyrir nytjastofninn sjálfan. Mikilvægt er að hugað verði að því hvernig megi draga úr kappveiðum meðan ráðherra hefur aflahlutdeildarsetningu í undirbúningi.

Grundvallaratriði við fiskveiðistjórn er að viðhöfð sé vísindaleg stjórn á því hvaða veiði er heimiluð og hvernig aflahlutdeild er úthlutað. Það er nauðsynlegt að vernda nytjastofna við Íslandsstrendur, stuðla að sjálfbærum veiðum og standa vörð um atvinnu þeirra sem stunda veiðar. Við útvíkkun kvótakerfisins vakna þó spurningar um grundvöll kerfisins sem byggt er á. Það er óumdeilt að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, þar sem aflahlutdeild er úthlutað á grundvelli veiðireynslu og þar sem framsal aflahlutdeildar er heimilað, hefur leitt til þess að yfirráð yfir sjávarauðlindum landsins hafa safnast á fáar hendur. Fáir aðilar hafa nú mikil yfirráð í íslenskum sjávarútvegi og njóta þeirra takmörkuðu eignarréttinda sem aflahlutdeild fylgir, sem er þó ekki takmarkaðri en svo að þeir geta nokkurn veginn gengið að nýtingu hennar vissri um ókomna tíð. Hagnýting auðlindanna er þar með orðin nokkurs konar einkamál þessarar konungsfjölskyldu íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Það að færa fleiri nytjastofna undir þetta sama kerfi mun að lokum leiða til sömu samþjöppunar og sést hefur í öðrum nytjastofnum.

Um þá aðferð að úthluta aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu má segja að hún verðlauni frumkvöðla innan greinarinnar og þá sem hafa lagt á sig vinnu við að útfæra nýjar aðferðir til að veiða og til nýtingar á nytjastofnum. Það er jákvæður hvati sem er mikilvægur í hvers konar nýsköpunarumhverfi. Á hinn bóginn verður að líta til þess að slíkt kann að torvelda nýliðun í greininni seinna, jafnframt því sem það býr til mjög óæskilega hvata við veiðar á tegundum sem ekki hafa enn verið kvótasettar.

Það sem er þó alvarlegast við núverandi kerfi um úthlutun aflahlutdeildar er eflaust að í því felst gjöf á því sem er í raun varanleg nýtingarheimild á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, sem hefur mjög mikið fjárhagslegt verðmæti, án nokkurs endurgjalds. Útgerðir greiða árlega veiðigjöld fyrir nýtingu hvers árs í sumum nytjastofnum en ekkert gjald er innheimt fyrir upprunalegu kvótaúthlutunina sem stríðir gegn þeirri grundvallarhugmynd að auðlindir lands og sjávar séu sameign þjóðarinnar.

Markmið laga um stjórn fiskveiða er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofna og að tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Frumvarpið gengur þvert á markmið laganna um vernd fiskstofna, almannahag og byggðasjónarmið og snýr frekar að því að útvíkka núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur sætt vaxandi gagnrýni almennings um árabil og í nýlegri könnun kom í ljós að 80% telja það ekki sanngjarnt kerfi.

Kvótakerfið er mannanna verk og ekki meitlað í stein. Við alla endurskoðun, breytingu eða útvíkkun á því verða hlutaðeigandi að þora að spyrja sig hvort kerfið þjóni heildarhagsmunum þjóðarinnar. Ef svo er ekki verða stjórnmálamenn að hafa til þess þor og hugrekki að gera þær breytingar á kerfinu sem þörf er á. Það er því mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi þjónar ekki heildarhagsmunum þjóðarinnar og að breytingar í þessa átt munu einungis auka misskiptingu í íslensku samfélagi.