Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:31]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég var að koma af ráðstefnu í húsi Vigdísar þar sem hæstv. utanríkisráðherra var með okkur í utanríkismálanefnd í panel. Ég ætla aðeins að víkja að því hér á eftir vegna þess að ég ætla að leyfa mér að endurtaka eitthvað sem ég talaði um þar. Ég tek það fram, með fullri virðingu fyrir Miðflokknum, að ég ætla ekki að fara að láta kalla mig einn Miðflokksmanna úr ólíkum flokkum hér á þinginu þó að ég spyrji spurninga sem ég er búinn að spyrja í mörg ár.

Áður en ég vík að því þá ætla ég að leyfa mér að leiðrétta hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur, lögfræðing og hámenntaða manneskju í fræðunum. Það var einn flokkur á Íslandi sem vildi inn í EES 1989, 1990 og 1991 og það var örflokkurinn Alþýðuflokkur. Það var bara heppni þegar kom að örlagastundu í lífi Sjálfstæðisflokksins og nýs formanns sem hafði skorað á hólm gamlan vin sinn, Þorsteinn Pálsson, sem formann — flokkurinn stóð klofinn og annaðhvort var að lenda í minni hluta eða samþykkja það að fara inn í Evrópska efnahagssvæðið og ganga með Alþýðuflokknum til þeirra verka. Þannig að það að tala um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið meginþátt í því er orðum aukið, hv. þingmaður. Hann samþykkti að koma með í vegferðina. Þeir sem tóku meginþátt í því voru þeir sem komu Alþýðuflokknum til valda á þeim forsendum að hann væri einn íslenskra flokka með vígorðið „Ísland í A-flokki þjóða“. Það var auðvitað stórvinur hv. varaþingmanns Friðjóns Friðjónssonar sem þar fór fremstur meðal jafningja, Jón Baldvin Hannibalsson, og þeir sem gengu þar með í för og komu þessu á koppinn höfðu enga ástæðu til að bera kinnroða af þeirri ákvörðun. Það var vel ígrunduð ákvörðun á þeim tíma, rétt eins og við viljum ímynda okkur að við tökum ákvörðun um að ganga í hjónaband að vel ígrunduðu máli með tiltekinni manneskju sem rímar við okkar skap og geðslag. Slíkt hjónaband getur auðvitað súrnað og makinn veikst, jafnvel á geði eða byrjað að vakla og lent í ruglinu. Öll sambönd, öll hjónabönd, öll milliríkjasambönd, öll vináttusamband þurfa að þola reglubundna endurskoðun og endurnýjun á heitunum. Það þarf að vera gagnkvæmur vilji og gagnkvæm ánægja. Þetta er ekki svart eða hvítt.

Og það að spyrja spurninga um hluti eins og þá sem eru hér eru til umræðu í dag, það er bara fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt og í rauninni algjörlega bráðnauðsynlegt vegna þess að, eins og hér hefur verið vikið að og hv. þm. Bergþór Ólason hefur ítrekað vikið að, þessi samningur er auðvitað gjörólíkur þeim sem við skrifuðum upp á fyrir tæplega 30 árum. Það blasir algjörlega við. Hann hefur bólgnað út. Hann hefur tekið til mun fleiri þátta en þess sem þá var. Við innleiddum helling í upphafi og höfum verið afar þæg og hlýðin allar götur síðan. Það sem ég tel að sé afar mikilvægt fyrir okkur er að vita og upplýsa þjóðina um hvað sé í þessu fyrir okkur, hver sé ávinningurinn í dag. Það var alveg ljóst fyrir 30 árum að 10% niðurfelling á tollum á aðallega útflutningsvöru okkar var gríðarlegur búhnykkur sem kom öllum vel og ekki síst fyrirtækjunum sem stóðu í sjávarútvegi á þeim tíma með nýfengna kvóta í farteskinu. Nú er þeim málum háttað með allt öðrum hætti en þá var. Við sjáum ekki 10% af útflutningi sjávarafurða í bókhaldinu lengur. Þessu er farið með ýmsum hætti, alls kyns milliliðir og menn selja sjálfum sér og kaupa og guð má vita hvað.

Ég lagði fram fyrirspurn 13. mars um einföld svör við fjórum spurningum. Það er alveg rétt að Björn Bjarnason var fenginn til að skrifa hér skýrslu og hann svaraði bara örfáum af þeim spurningum. Hann kom til að mynda aldrei að neinu sem vék að hagrænum þáttum eða hvernig hagtölurnar litu út í bókhaldinu. Hver var heimanmundurinn þá og hver er hann núna? Hverjar eru skuldbindingar okkar og hvernig högum við því? Ég tek það fram að ég er sko enginn andstæðingur EES, þvert á móti, ég hef verið stoltastur af því af öllu sem ég hef komið nálægt í pólitík að hafa komið okkur inn á sínum tíma. En það er bókstaflega skylda okkar að staldra við reglubundið og spyrja: Er þetta allt í rétta átt? Er þetta allt til farsældar? Erum við ánægð? Erum við glöð í þessu hjónabandi? Og ef svo er ekki þá er bara fullkomlega eðlilegt að viðra það. Mínir gömlu félagar úr Alþýðuflokknum hittast enn þann dag í dag reglulega og fyrir nokkrum árum þá urðu þeir dálítið skrýtnir á svipinn sumir þegar ég bara benti þeim á að án fjórfrelsisins fræga hefði hér ekki orðið það sem sumir kalla svokallað hrun. Það var þessi frjálsi flutningur fjármagns milli landa og allur sá galskapur sem unglingaþjóðin færðist í fang sem setti okkur hér svoleiðis rækilega á andlitið og tugir þúsunda misstu heimili sín og aleigu og eru enn að reyna að ná áttum, sumir kannski illa staddir fyrir en guð veit hvað. Fjórar spurningar sem ekki hefur verið svarað enn þá en voru sendar 13. mars hljóma svona:

„1. Hver var árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þátttöku Íslands í rekstri EFTA árin 2012– 2022?

2. Hversu mikið var greitt árlega úr ríkissjóði til EES vegna álagðra gjalda eða kostnaðarþátttöku í sameiginlegum verkefnum á sama tímabili?

3. Hver var árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna innleiðingar EES-tilskipana á sama tímabili?

4. Hversu mörg stöðugildi þarf til að vinna að innleiðingu EES-tilskipana? Svar óskast sundurliðað eftir ráðuneytum og undirstofnunum þeirra.“

Ef þetta eru ósanngjarnar spurningar, nú „so be it.“ Ég er búinn að spyrja þessara spurninga í u.þ.b. fimm ár en hef engin svör fengið. Ég veit að það eru ýmsir búhnykkir fyrir fyrirtæki sem eru að sækja um styrki til að gera hitt og þetta. Þeir sem vilja fara í nám til útlanda að undangengnum íslenskum námslánatökum, fara til útlanda og sleppa við skólagjöld, það er fínt fyrir þá einstaklinga ef þeir þá yfir höfuð snúa til baka sem sumir gera og aðrir alls ekki. Það eru ýmsir kostir fleiri. Það er þetta frelsi til að ferðast á milli landa og þessi löggjöf sem við höfum innleitt sem er að meðaltali 650 tilskipanirnar á ári, tilskipanir frá Evrópu á ári, um hvað við skulum gera í stóru og smáu. Við höfum verið ákaflega hlýðin og samstarfsfús í þeim efnum. Það má svo benda á þrætuepli á borð við orkupakkann sem vonandi verður nú ekki mikið framhald á. Við hefðum getað gert eitthvað í honum fyrir mörgum árum en við misstum af þeirri lest að setja fyrirvara við það smámál sem sumir kalla.

En nú stendur þjóðin frammi fyrir stórmáli sem heitir ETS og á að verða einhvers konar minnisvarði um glæsilegan feril Ursulu. Og aldrei í sögu Íslands hafa jafn margir fundir verið haldnir um sama hlut; 80 fundir sendiráðsins í Brussel, með öllum þeim hagsmunavörðum sem þar eru af Íslands hálfu, 16 fundir hæstv. innviðaráðherra okkar, Sigurður Inga, og bréfin frá forsætisráðherra og utanríkisráðherra en þetta er allt sama svarið: Nei, við ætlum ekkert að taka tillit til þessarar viðkvæmu stöðu ykkar þarna við endimörk hins byggilega heims, við ætlum að halda þessu striki, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þá eigum við sannarlega rétt á því að segja: Nei, takk, ekki þetta. Þetta bókstaflega skaðar okkur sem millilendingarhöfn í ferðaþjónustu heimsins í okkar heimshluta og þetta skaðar möguleika fólks á því að komast hingað til Íslands, sem er tiltölulega langur vegur, og við ætlum ekki að gangast undir þetta. Þá skulum við standa í lappirnar.

Það sem ég nefndi hér fyrr í dag á fundinum með utanríkisráðherra og fullum sal í hús Vigdísar er að við hefðum betur staðið í lappirnar gagnvart hinum mjög svo „intimiderandi“ Bandaríkjaforseta sem heimtaði að við gerðumst opinberir stuðningsaðilar innrásarinnar í Írak. Þar þurfti okkar eigin dómgreind að vera yfirsterkari þeirra og þeirra kröfum um atfylgi Íslands. Ég ætla að vona það sannarlega þegar einhvern tíma kynni að koma að því að 380 milljóna þjóðin í Vesturheimi heimti að við séum með í þessu og með í hinu — forsíða Morgunblaðsins í dag er að segja frá stefnubreytingu í vopnaskaksmálum, risafótboltavallarstærðarkafbátar, kjarnorkuknúnir, eru að fara að urra hver framan í annan, rússneski björninn og ameríski ránfuglinn hér við Helguvík, og við segjum já og við stöndum á bak við utanríkisráðherrann okkar í þessu sem og flestu öðru. En ef kröfurnar fara að gerast mjög mikið svæsnari og hættulegri fyrir okkur hér norður í ballarhafi, óvarin af eigin vörnum a.m.k., þá þurfum við að kunna að segja nei við stóra Uncle Sam.

Við segjum nei við rússneska björninn í þessu vopnabrölti hans, stöndum við það. Svo koma samfélagsmiðlar og umræða fólksins í landinu sem er sem betur fer ekki eins og hún er t.d. í Rússlandi þar sem hún er „limiteruð“ og menn eru blindaðir og mataðir á falsfréttum og staðreyndum sem henta því fyrirkomulagi. Dómsvaldið á Íslandi er því miður ekki saklaust af því að hafa látið almannaróminn einhvern veginn hafa áhrif á sínar niðurstöður í dómsmálum. Við verðum absolút að standa við stjórnarskrána í því að treysta okkar eigin hyggjuviti þegar við tökum ákvarðanir hér á Alþingi og treysta á eigið innsæi og eigið hyggjuvit þegar þjóðirnar í kringum okkur, vinaþjóðirnar í Bandaríkjasamhenginu eða vinaþjóðirnar Evrópusamhenginu — stöndum með sjálfum okkur fyrst og okkar eigin dómgreind. Látum engan George Bush hrifsa af okkur eigin dómgreind í framtíðinni.

Ég segi hér varðandi þessa 5. gr., margumræddu: Það var mjög mikið um það deilt á sínum tíma þegar við gengum inn í Evrópska efnahagssvæðið hvort þetta stæðist stjórnarskrá. Þá var skipaður sérstaklega fjögurra manna hópur sem Gunnar G. Schram fór fyrir og þau mál alveg sérstaklega skoðuð. Sá hópur komst að þeirri niðurstöðu að þetta stæðist stjórnarskrá, þetta ákvæði sem við höfum haft á einhverju gráu svæði síðan þá. Nú er örugglega mikið verið að þrýsta á okkur og hóta okkur öllu illu ef við klárum þetta ekki. ,,Tengsl þjóðaréttar við íslenska stjórnskipun og áhrif alþjóðasamninga á íslenskan rétt“ er grein eftir Björgu Thorarensen sem við hittum nú hér fyrr í dag, við hæstv. ráðherra. Hún víkur að því hvort nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskrá og kemst að því að þetta kalli ekki á stjórnarskrárbreytingar og að við værum eftir sem áður innan marka í því. En ef þetta ákvæði t.d. verður hnökralaust samþykkt þá þurfum við eftir sem áður að standa í lappirnar þegar kemur að ETS-málinu. Þá þurfum við að þora að segja nei, þetta passar okkur ekki. Takk, en nei takk. Við þurfum líka að búa okkur undir það varðandi álitamál eins og varðandi tóbaksvarnir og annað slíkt sem íslensk lagaákvæði banna, t.d. auglýsingar á tóbaki og áfengi, að það mun þá fella þau íslensku lög úr gildi. Búum okkur undir það. Þetta er partur af pakkanum.

Það að ræða þetta svona þýðir ekki að maður vilji ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu, það þýðir bara að maður setur spurningarmerki við allt það nýja sem tilheyrir ungfrú Evrópu sem var ekki fyrir 30 árum. Bergþór, hv. þingmaður Miðflokksins, talaði um að þetta hefði allt saman bólgnað óskaplega. Það gerist í hjónaböndum; makarnir bólgna út með ólíkum hætti, gerast kröfuharðari hvor á annan og skrýtnari. Sumir hér inni kannast eitthvað við þetta. Þá er það sama hvort daman heitir ungfrú Evrópa eða ungfrú Suðurland eða hvað annað. Verum alveg heiðarleg með það að við erum í fullum rétti til að ræða hvort allt er í lagi, hvort við viljum skuldbinda okkur enn frekar, (Forseti hringir.) endurnýja heitin eða láta gott heita. Það sem skiptir mestu er að við spyrjum okkar eigin dómgreind (Forseti hringir.) um hvert skref sem við stígum nýtt til hliðar, fram á við eða aftur á bak. Verum ekki hrædd við að spyrja spurninga, (Forseti hringir.) hversu óþægilegar sem þær kunna að hljóma. Og það er enginn Miðflokksmaður sem talar hér.