Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

Húsnæðismál.

[16:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Hækkun fasteignaverðs á síðustu tíu árum er ævintýraleg og hefur verið rúmlega 100% að raunvirði. Hækkunin á hinum Norðurlöndunum er um fjórðungur. Það er ungt fólk sem tapar mest á þessu ástandi Verð á 120 m² íbúð á höfuðborgarsvæðinu jafngildir núna rúmlega 13 árstekjum einstaklinga að meðaltali. Fólk á leigumarkaði býr við ævintýralega erfiðar aðstæður og kannanir sýna að fólk á leigumarkaði hefur sjaldnast valið sér þetta hlutskipti. Á árinu munu 4.500 heimili losna undan skjóli fastra vaxta óverðtryggðra lána. Þessara heimila bíða núna þungar vaxtahækkanir. Þetta eru fyrstu kaupendur og þetta eru barnafjölskyldur. Vextir á húsnæðislánum eru mun hærri en í nágrannaríkjunum. Hér þarf að hækka vexti margfalt til að takast á við svipaða verðbólgu og er í nágrannalöndunum. Vaxtahækkanir 12 sinnum í röð hafa fryst byggingarbransann því að eftirspurn er horfin. Hert skilyrði fyrir fyrstu kaupendur hafa sömu áhrif. Og hvað gerist svo þegar frostinu linnir? Það sama og alltaf. Þá hafa skapast kjöraðstæður fyrir nýja fasteignabólu í boði ríkisstjórnarinnar sem neitar að axla ábyrgð á sínu hlutverki hér. Á sama tíma er nefnilega engin raunveruleg húsnæðisstefna hjá ríkisstjórninni. Afleiðingin blasir við. Flestu ungu fólki er ómögulegt að kaupa íbúð ef pabbi eða mamma geta ekki hjálpað til. Það er alltaf að verða skýrara að almenni markaðurinn leysir þetta ekki einn síns liðs. Það þarf félagslegt kerfi af hálfu hins opinbera sem tekur á þeirri þörf sem myndast á húsnæðismarkaði á hverju ári. Húsnæðismálin eru viðvarandi verkefni stjórnvalda en ekki málaflokkur átaksverkefna. Það þarf viðvarandi stefnu af hálfu ríkisins sem hefur skilið sveitarfélögin ein eftir með sinna þeirri grundvallarþörf fólks að eiga þak yfir höfuðið.

Forseti. Það er ekki jafnt gefið á Íslandi. Í dag er forsenda þess að geta keypt að eiga pabba eða mömmu sem hlaupa undir bagga. Aðrir eiga ekki séns.