Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:21]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir sitt innlegg inn í þessa umræðu og tek heils hugar undir með því sem hún segir, að það er vond hugmynd að slá af faglegum kröfum og fullt tilefni til að vanda til verka. Þar erum við alveg sammála.

Hv. þingmaður lýsir yfir stuðningi þingflokks Samfylkingarinnar við þetta nefndarálit. Þegar við horfum á tímaásinn þá eru ríflega tvö ár liðin frá þessari athugasemd — ESA stígur mjög fast niður vegna lagasetningarinnar frá 2018, eins og hefur verið rakið — og hér stöndum við og erum að ræða þetta nú. Í millitíðinni kemur þessi úttekt sem ég held að við séum öll sammála um að verði að bregðast við hvað varðar úttekt á lagaumgjörðinni í fiskeldi. Í því samhengi endurtek ég það sem hv. þingmaður sagði, að það er vond hugmynd að slá af faglegum kröfum. Ég veit það og tel mig skilja að við ætlum öll að vanda okkur við þá málsmeðferð í framhaldinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað varðar tillögu minni hlutans í þessu áliti, telur hún að einfaldasta og eðlilegasta viðbragðið við þessu ríflega tveggja ára gamla áliti ESA sé að fella úr gildi þessi ólög frá 2018? Telur hv. þingmaður að við séum með því að mæta athugasemdum ESA, vitandi það að í millitíðinni öðluðumst við frekari upplýsingar um að við þurfum að vinna betur í þessum málum og erum hvergi nærri hætt, eins og komið hefur fram í máli hæstv. matvælaráðherra?