Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

safnalög o.fl.

741. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir þetta andsvar. Spurningin lýtur að breytingartillögu er varðar það hvenær þetta tekur gildi. Umræðan í nefndinni snerist um það hvort þetta tæki gildi afturvirkt miðað við þá samninga sem hafa verið gerðir við safnstjóra og aðra sem eru í þessum stöðum í dag og um hvað þetta þýðir gagnvart þeim. Þetta var heldur óskýrt svo að við tókum þá ákvörðun að þetta tæki gildi ef samningur verður framlengdur í fimm ár. Samningurinn er þannig gerður að þú ert ráðinn til fimm ára í senn. Næst þegar framlengt er, ef sú ákvörðun er tekin, þá kemur inn þetta tíu ára ákvæði. Þó er gert ráð fyrir því að bara sé horft til tísu ára í senn í þessum málum. Það var umræðan í nefndinni. Samt sem áður er hægt, ef mjög ríkur vilji er fyrir því, að þetta geti farið upp í 15 ár hjá þeim sem eru tiltölulega nýkomin í þessar stöður. Það gildir um stöðu þjóðminjavarðar og safnstjóra Listasafns Íslands, einstaklingar eru nýkomnir í þær stöður. Við horfum til þess að þetta taki gildi næst, annaðhvort við næstu ráðningu eða við næstu framlengingu. Þetta á ekki við um þær stöður sem eru í gangi núna.