Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

gerð stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa.

383. mál
[14:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það er kannski rétt að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að leggja þetta mál fram og gera mér kleift að vera enn og aftur meðflutningsmaður á tillögu sem er löngu tímabær; hún var tímabær þegar hún leit fyrst dagsins ljós í nóvember 2019. Ef við lítum bara yfir þann tíma sem er liðinn síðan þá værum við í miklu betri stöðu ef ráðist hefði verið í þessa greiningarvinnu í Covid-lægðinni sem varð í framhaldinu. Þá gafst stjórnvöldum tækifæri til að hugsa ákveðnar grunnforsendur upp á nýtt. Hvað varðar komu skemmtiferðaskipa eru ótalmörg álitaefni sem hefði mátt takast á við á þessum tíma í samræmi við þá tillögu sem liggur hér frammi. Þó að hv. þingmaður hafi mælst til þess að nefndin breyti skiladeginum, 1. maí 2023, vegna þess að sá tími sé liðinn, hefði skilatíminn auðvitað átt að vera á árinu 2020 til þess að við hefðum verið með verkfæri til að takast á við vandann.

Sem betur fer er nú sumt af því sem nefnt er í tillögunni til umræðu og sumt jafnvel að hluta komið til framkvæmda. Mig langar að nefna sem dæmi að við samþykktum fyrr í vor lög um að hafnir megi miða gjaldtöku við umhverfisframmistöðu skemmtiferðaskipa og séu þannig komnar með efnahagslegan hvata til að stýra því að grænni skip komi til hafnar en ella. Eins er til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd, í tengslum við óskylt mál, að skoða hvort einhvern veginn sé hægt að útfæra samspil á milli Landhelgisgæslunnar, sem hefur eftirlitshlutverk með skipum þegar þau sigla inn og út firði hringinn í kringum landið, og Umhverfisstofnunar til þess að koma einhverjum böndum á landtöku, sérstaklega á friðlýstum svæðum vegna þess að þau ráða ekki öll við að fá mörg hundruð manns spígsporandi á viðkvæmu landsvæði.

Það sem við höfum hins vegar ekki rætt á vettvangi þingsins, sem talað er um í þessari tillögu, en er samt aðalatriðið og það sem við þurfum að ná einhverri niðurstöðu í, er stóra spurningin: Hversu mörg skemmtiferðaskip ber landið? Það þarf að meta. Það er mergur málsins í þessari tillögu. Það er ekki hægt að leyfa hafnarstjórnum hér og þar um landið að stýra því hversu mikið við þenjum innviði á friðlýstum svæðum, hversu mikið við þenjum alla innviði ferðaþjónustunnar, oft í kringum tiltölulega lítil byggðarlög. Hvernig er staðan á Norðurlandi þegar tvö eða þrjú stór skemmtiferðaskip eru í höfn á Akureyri og tugir hópferðabíla fara sömu leiðina austur að Goðafossi og austur eftir? Eru klósett fyrir þetta fólk allt saman? Er pláss? Þetta er stóra spurningin sem stjórnvöld hefðu þurft að svara varðandi ferðaþjónustu almennt en sérstaklega varðandi þessi massaskemmtiferðaskip; athugun sem lagt er til í þessari tillögu að fari fram og er alveg gríðarlega mikilvægt að gerist hið fyrsta.