Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit.

1053. mál
[18:16]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ekki rétt nálgun að horfa þannig á hlutina að eftirlitsgjöld þurfi að standa undir kostnaði við eftirlitið. Þetta kallar á talsverða útreikninga. Ég er ekki endilega viss um að þetta sé leiðin. Miklu frekar ætti að tryggja gott eftirlit, alveg óháð kostnaði. Það er þannig í þessu eins og öðru hvað varðar innheimtu á gjöldum að oft fer minnsti tíminn og kostnaðurinn í að hafa eftirlit með starfsemi þeirra sem standa sig vel. Þess vegna þarf ekki að reikna út hvern og einn kostnaðarlið við eftirlit upp á krónu, heldur þarf að standa myndarlega að eftirliti Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar án þess að horfa of mikið á gjaldskrá.

Horfa ætti á þetta eins og umferðareftirlit. Þau gjöld og þær sektir sem innheimtast eiga ekki að standa undir kostnaði. Þetta er starfsemi sem þarf að vera og tryggja þarf góða umgjörð um hana. Ég er sannfærður um að fiskeldi á Íslandi standi vel undir þessum kostnaði og ekki þurfi að horfa svo grannt á gjaldskrá, hvort rukka eigi 160.000 kr. fyrir eftirlitsheimsókn. Við höfum dæmi um það í þessum geira að minni aðilar sérstaklega hafa komið verulega illa út úr þessari gjaldskrárinnheimtu samkvæmt einhverjum útreikningum. (Forseti hringir.)