154. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2023.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:56]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Fólkið í landinu getur treyst því að Samfylkingin tekur örugg skref. Þannig vinnum við og þannig munum við stjórna, fáum við til þess traust í næstu kosningum. Samfylkingin fer ekki í heljarstökk. Við rjúkum ekki upp út af minnstu málum. Við látum ekki slá okkur út af laginu. Við erum Jafnaðarflokkur Íslands. Það er okkar að veita fólki öryggi og fullvissu um að við getum stjórnað í þágu þjóðar; staðið vörð um það sem fólki er kærast.

Nú er kjörtímabilið hálfnað og þá má spyrja: Hefur ríkisstjórnin notað þennan tíma til góðs fyrir fólkið í landinu? Það fer mikil orka í að rífast innbyrðis og reyna að láta stjórnmálin snúast um eitthvað allt annað en það sem raunverulega brennur á fólkinu í landinu.

Samfylkingin tekur ekki þátt í þessu. Í sumar vorum við að hugsa um heilbrigðismál og vinna úr upplýsingum frá hátt í 40 opnum fundum með almenningi um land allt og öðru eins af fundum á vinnustöðum, með fólki á gólfinu og sérfræðingum um heilbrigðiskerfið. Við viljum mæta til leiks með raunsæjar lausnir sem endurspegla þau skref sem meiri hluti þjóðar vill að verði tekin í grundvallarmálaflokkum.

Fólkið í landinu skilur vel að það er ekki hægt að gera allt. Það vill bara að stjórnmálafólk sé hreinskilið um þá vegferð sem það treystir sér í. Eða eins og ágætur maður sem ég rakst á á kaffihúsi um daginn sagði við mig: Maður gerir ekki miklar kröfur til stjórnmálamanna, bara að þau geri það sem þau segjast ætla að gera.

Þess vegna höfum við í Samfylkingunni viðurkennt að það þarf að forgangsraða, bæði á næsta kjörtímabili og í þeirri undirbúningsvinnu sem flokkurinn hefur þegar hafið með fjölda fólks um land allt. Það er efnahagur, velferð og öryggi fólks sem er númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur.

Góðir landsmenn. Fyrir lok þessa mánaðar mun Samfylkingin kynna: Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn, fimm þjóðarmarkmið í þessum veigamikla málaflokki, sem stendur fólki svo nærri frá degi til dags, ásamt aðgerðum, öruggum skrefum í rétta átt sem Samfylkingin vill stíga í nýrri ríkisstjórn að loknum næstu kosningum. Við höfum hlustað, meðtekið og sett á blað hvernig við viljum tryggja að grunnurinn sé í lagi, að fólk finni fyrir öryggi hvar sem það býr og hafi fastan tengipunkt við heilbrigðiskerfið, hvernig við drögum úr skriffinnsku og tryggjum að heilbrigðisstarfsfólk hafi meiri tíma með sjúklingnum, svo dæmi séu nefnd.

Þetta er það sem við erum að gera á meðan ríkisstjórnin er upptekin við að rífast við sjálfa sig um sín eigin sjálfsköpuðu vandamál, sitt eigið stjórnleysi í útlendingamálum, sitt eigið virkjanastopp og sitt eigið endalaus hringl með hvalveiðar. En það eina sem ríkisstjórnin virðist vera algjörlega sammála um innbyrðis er að halda áfram að reka skaðlega efnahags- og velferðarstefnu sem grefur undan stöðugleika og bítur í skottið á sér.

Þetta blasti við landsmönnum síðast í gær, þrátt fyrir ítrekuð loforð hæstv. ráðherra um bót og betrun þegar kemur að stjórn efnahagsmála. Fjárlögin afhjúpa þau. Ríkisstjórnin heldur sig við óbreytta stefnu frá fjármálaáætlun í vor og árið þar á undan, að því er virðist óháð aðstæðum í samfélaginu, á tímum viðvarandi verðbólgu og eftir fjórtán vaxtahækkanir í röð. Þannig kallar ríkisstjórnin enn hærri vexti yfir heimilin með því að velta allri ábyrgð á baráttunni við verðbólguna í fang Seðlabankans.

En það sem er alvarlegast er að úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar kyndir undir óróa á vinnumarkaði sem er hætt við að leiði til enn meiri verðbólgu. Og það er í besta falli broslegt, eftir markvissa fjölgun ráðherrastóla, að nú eigi aðhaldið nær allt að koma frá hagræðingu í efsta stjórnsýslulaginu, sem þó lekur í gegnum allt kerfið. En enginn kjarapakki, ekkert gert til að koma í veg fyrir að kjarabætur verði einvörðungu sóttar í gegnum launaliðinn sem ríkið fær svo sjálft í fangið af fullum þunga. Þetta kallast að sjá ekki skóginn fyrir trjánum.

Hvað er til ráða? Við breytum ekki grundvallaratriðum stefnu í efnahags- og velferðarmálum með breytingartillögum hér inni. En Samfylkingin mun halda áfram að leggja fram kjarapakka, fullfjármagnaða og gott betur, til að vinna gegn verðbólgu og stuðla að ró á vinnumarkaði. Maður vonar bara að ríkisstjórnin hætti að benda á alla aðra og fari að horfast í augu við eigin ábyrgð.

Góðir landsmenn. Samfylkingin er stjórnmálaflokkur sem hefur mikinn metnað fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. En sá metnaður má aldrei verða til þess að við missum tengsl við veruleika og þarfir fólksins í landinu eins og þörfina fyrir stöðugleika, festu og öryggi. Þess vegna boðum við engin heljarstökk heldur örugg skref í rétta átt. Við skiljum að það eru dýrmætir þættir í okkar samfélagi, í okkar umhverfi, sem binda okkur saman og sem okkur ber skylda til að vernda og varðveita, fyrir fólkið í landinu og fyrir komandi kynslóðir.

Í heimi hraðra breytinga getur fólk misst fótfestu og upplifað óöryggi. Og þá getur þráin eftir því að vernda, varðveita og passa upp á ákveðið jafnvægi orðið þungamiðjan í jafnaðarstefnu sem er afgerandi í efnahags- og velferðarmálum og sem setur öryggi og virðingu fólks í fyrsta sæti. Jafnaðarstefna sem tryggir fólki öryggi og virðingu í daglegu lífi felur líka í sér mikilvægan boðskap um að engin manneskja þurfi að óttast um öryggi sitt vegna þess hver hún er. Við verndum einmitt og varðveitum það sem okkur er kærast, samfélagslegt traust, með því að taka fólki eins og það er. Án þessa trausts og virðingar fyrir fólki molnar undan samstöðunni sem við þurfum svo á að halda ef við ætlum að ráðast saman í þá vegferð sem fram undan er, vegferð sem Samfylkingin vill veita forystu, að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi.

Forseti. Góðir landsmenn. Þetta er sá valkostur sem Samfylkingin býður upp á: Örugg skref, velferð og virðing — engin heljarstökk. Það er loforð okkar og loforð mitt til ykkar. Orð eru til alls fyrst. En mestu skiptir að Samfylkingin noti áfram tímann í stjórnarandstöðu til að sýna hvernig við vinnum og hvernig við munum stjórna í ríkisstjórn, fáum við til þess umboð.

Kjörtímabilið er hálfnað. En línurnar eru að skýrast og það eru verkin sem tala. — Ég þakka áheyrnina.