154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:52]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég get tekið undir áhyggjur hans. Eins og kom fram í minni ræðu þá hefði ég svo gjarnan viljað sjá miklu meiri kraft í þessum málaflokki en að sama skapi, eins og hefur margoft komið fram, þá erum við með ótrúlega marga málaflokka og þeir eru ótrúlega margir gríðarlega mikilvægir. Ég mun leggja mig fram um að eiga þetta samtal við ráðherra málaflokksins og hvet aðra þingmenn til að gera það líka því að það er sannarlega svo, eins og hann nefnir með rafbílana, að við erum komin af stað. Við erum að gera vel og það kom fram í minni ræðu að við skörum fram úr hvað varðar rafbílaeign landsmanna miðað við önnur ríki þannig að allt er þetta í rétta átt. En ég get tekið undir með þingmanninum að ég vildi sjálfsögðu sjá hlutina gerast hraðar, að við gætum tekið stærri skref. En eins og fram hefur komið þá erum við að fara í rétta átt og ég hvet hv. þingmann til að spyrja nánar út í þetta þegar við hittum ráðherra málaflokksins í þessum sal.