154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:21]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir síðara andsvar. Afskaplega sem honum var mikið niðri fyrir. En það kemur mér svo sem ekkert á óvart að fá aðra eins hrákaslummu hérna í andlitið á manni eins og frá hv. þingmanni, enda í takti við það sem hans stjórnmálaflokkur er að boða. (Gripið fram í.) Að ætla að gera lítið úr 100 milljörðum kr. árlega inn í ríkissjóð og hvaða hagsmuni það myndi í rauninni geta verndað hjá íslenskum almenningi sem millitekjufólki — ég á ekki eitt einasta orð. Mér er í rauninni algerlega misboðið með þennan málflutning; að tala um að þetta sé árás. Og ég stend hér sem formaður Flokks fólksins, stolt af því að vilja verja lífeyrisréttindi þannig að fólk fái að njóta þess á meðan það er enn þá við þokkalega fulla heilsu. Ég veit ekki betur en að það kæmi öllum betur.

Og 50 millj. kr. eftir 40 ár með 3,5% skylduávöxtun lífeyrissjóðanna? Mér er svo gjörsamlega misboðið vegna þess að það er ekki nokkur einasti maður sem fær að njóta þeirra lífeyrisréttinda sem mönnum var talin trú um að þeir væru að byggja upp með því að vera skylduþvingaðir til að greiða hér í lífeyrissjóði án þess í rauninni að hafa nokkurt val um það hvert þeirra eigin launatekjur væru settar. Hvað væru margir búnir að ávaxta peninga sína mun betur en í lífeyrissjóðskerfinu, sem á margan hátt er eitthvað það andstyggilegasta sem við höfum séð. Og það er ekki einu sinni svo að þessi ágæti Sjálfstæðisflokkur tali um hvernig væri hægt að laga það eins og með gegnumstreymi eða öðru slíku þannig að fólk myndi raunverulega njóta þess að hafa verið lögþvingað til að greiða í þessa sjóði. Íslenskur almenningur á skilið að fá þessa hátt í 100 milljarða á ári beint inn í ríkissjóð til þess að taka utan um þjóðfélagið árlega til viðbótar við það sem nú er gert, enda veitir ekki af á þeirri vargöld sem hér ríkir í boði þessarar auðvaldsríkisstjórnar.