154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023--2027.

241. mál
[17:38]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar. Tillagan felur í sér fimm ára áætlun sem fjallar um tímabil sem hefst á þessu ári, 2023, og nær til 2027. Áætlunin er byggð á 5. gr. barnaverndarlaga og er þetta í fimmta sinn sem lögð er fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á grundvelli laganna.

Við gerð áætlunarinnar var haft virkt og víðtækt samráð við helstu hagsmunaaðila um áhersluatriði og forgangsröðun verkefna. Til að undirbúa verkefnið var skipaður starfshópur með fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, Barna- og fjölskyldustofu, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félagsráðgjafafélags Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Með starfshópnum vann jafnframt ráðgjafahópur sem settur var á fót til að tryggja að sem flest sjónarmið hagsmunaaðila yrðu tekin til athugunar. Þá var í fyrsta sinn haft samráð við börn við gerð framkvæmdaáætlunar í barnavernd.

Virðulegi forseti. Með nýrri framkvæmdaáætlun í barnavernd er blásið til stórsóknar í þjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Áætlunin er metnaðarfull og hefur það að markmiði að auka og bæta þjónustu við börn og fjölskyldur. Í áætluninni er líka lögð áhersla á aukið samstarf við fjölskyldur, börn, nærumhverfi barna og milli kerfa sem hafa aðkomu að málefnum barna. Markmiðið með nýrri framkvæmdaáætlun er að styrkja stoðir barnaverndarkerfisins svo það sé betur í stakk búið til að sinna sínum mikilvægu verkefnum.

Í nýrri framkvæmdaáætlun er horft til þess að byggja upp úrræði sem nýtast öllum börnum, óháð bakgrunni eða búsetu. Þá verður horft til þess að úrræðin myndu nýtast í meðferðarvinnu með ólíkum vanda, hvort sem um heimilisofbeldi, vanrækslu, uppeldisvanda, fíknivanda eða annars konar áskoranir er að ræða.

Það er meginmarkmið barnaverndarlaga að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði og að veita börnum sem búa við óviðunandi aðstæður og börnum sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu nauðsynlega aðstoð. Framkvæmdaáætlun þessi er á sviði barnaverndar og því afmarkast verkefnin samkvæmt skilgreiningu barnaverndarlaga. Við gerð áætlunarinnar var þó sérstaklega horft til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og gildissviðs þeirra. Segja má að áætlunin feli í sér innleiðingu farsældarlaganna til þess að tryggja vernd barna sem standa hvað verst í samfélaginu.

Áætlunin er umfangsmikil og er í henni gert ráð fyrir að áhersla sé lögð á tíu aðgerðir, sem ýmist eru á ábyrgð mennta- og barnamálaráðuneytis, Barna- og fjölskyldustofu eða Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Allar aðgerðirnar hafa verið kostnaðarmetnar og rúmast innan fjárheimilda sem eru hjá mennta- og barnamálaráðuneyti eða umræddum stofnunum. Ég ætla hér að fara stuttlega yfir þessar aðgerðir.

Í fyrsta lagi er um að ræða heildarendurskoðun á barnaverndarlögum. Fyrri hluti heildarendurskoðunar barnaverndarlaga var samþykktur hér á Alþingi sumarið 2021. Gert er ráð fyrir að á yfirstandandi kjörtímabili ljúki þessari heildarendurskoðun barnaverndarlaga og eftir atvikum endurskoðun annarra laga sem breyta þarf samhliða til að fá heildarsýn í málefnum barna hér á landi og þjónustu við þau. Þetta verkefni verður áfram unnið með þverpólitískri þing-mannanefnd um málefni barna og með stuðningi og í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna þar sem sitja fulltrúar margra hlutaðeigandi ráðuneyta auk Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Í öðru lagi er lagt til að byggð verði upp meðferðarúrræði utan meðferðarheimila. Hér er annars vegar horft til hagnýtrar fjölskyldumeðferðar í barnavernd, sem nær til barna frá fæðingu til 18 ára sem búa á ótryggum heimilum auk þess sem meðferðin tekur á hegðunarvanda barna. Hins vegar er litið til samþættrar hugrænnar atferlismeðferðar við ofbeldi gegn börnum. Um er að ræða meðferð sem er sérstaklega hugsuð fyrir börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi foreldris og hefur reynst vel í nágrannalöndum okkar.

Í þriðja lagi fjallar framkvæmdaáætlunin um meðferðarfóstur. Sú aðgerð er sett fram til að bregðast við ákalli um meiri fræðslu og handleiðslu við fósturforeldra með það að markmiði m.a. að koma í veg fyrir fósturrof. Fósturrof er sérlega slæmt fyrir fósturbörn og getur haft varanlegar afleiðingar á þroska og vellíðan fósturbarna. Auk þess hafa fósturrof aukinn kostnað í för með sér bæði fyrir ríkissjóð og sveitarfélög.

Fjórða aðgerðin í framkvæmdaáætluninni fjallar um að efla og bæta verklag í barnaverndarþjónustu. Undir þessari aðgerð er mælt fyrir um innleiðingu á samræmdu verklagi í barnavernd þegar kemur að svokölluðum öryggismerkjum, en það er styrkleikamiðuð nálgun í barnaverndarstarfi sem miðar að því að leggja mat á áhættuþætti og verndandi þætti í lífi barns. Þetta er nálgun sem gengur út frá samvinnu og samráði við börn og fjölskyldur þeirra og samvinnu kerfa. Undir aðgerð fjögur er líka horft til þess að auka fræðslu fyrir börn um hlutverk barnaverndarþjónustu. Markmið þessarar aðgerðar er að börn þekki betur réttindi sín og geti þá leitað til barnaverndar þegar þess gerist þörf.

Fimmta aðgerð áætlunarinnar fjallar um gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu. Þar er lagt til að á tímabili áætlunarinnar verði unnið að gerð og útgáfu slíkra gæðaviðmiða. Gæði þjónustu í barnavernd eru m.a. háð getu og sveigjanleika barnaverndarstarfsmanna til þess að veita þessa þjónustu. Er því lagt til að svonefnd málavog verði innleidd til þess að meta álag á barnaverndarstarfsmenn.

Í sjötta lagi er í framkvæmdaáætluninni fjallað um verklag vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn. Mikilvægt er að barnaverndarþjónusta geti veitt fylgdarlausum börnum fullnægjandi stuðning til þess að þau geti fótað sig vel í íslensku samfélagi. Auk þess eru fylgdarlaus börn talin vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu þar sem þau eru m.a. útsett fyrir mansali og annars konar misbeitingu sé öryggi þeirra ekki tryggt. Því er brýnt að verklag við móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn sé endurskoðað og bætt til þess að endurspegla núverandi stöðu í málaflokknum.

Sjöunda aðgerðin fjallar um könnun alvarlegra atvika í tengslum við börn. Ár hvert býr hópur barna við aðstæður þar sem þau upplifa ýmiss konar ofbeldi eða vanrækslu og verða sum þeirra fyrir alvarlegum skaða af þeim sökum. Til þessa hefur ekki verið samræmd skráning yfir tíðni mála þar sem börn skaddast alvarlega eða láta lífið vegna ofbeldis eða vanrækslu og engum er falið lögum samkvæmt að kanna heildstætt mál þessara barna þvert á þau þjónustukerfi sem hafa afskipti af málum barna. Mikilvægt er að koma á fót sjálfstætt starfandi viðbragðshóp sem er falið að gera athugun á alvarlegum atvikum tengdum börnum. Þetta er í samræmi við það sem gert hefur verið í nágrannalöndum okkar sem sett hafa á fót teymi til að varpa ljósi á dauðsföll barna og koma með ábendingar um hvernig megi fækka þeim. Áherslan í slíkum teymum er á að þróa aðferðir til að bæta heilsu og öryggi barna, bæta samskipti milli stofnana, greina orsakir og viðbrögð við dauðsfalli og safna og birta upplýsingar um dauðsföll barna.

Í áttunda lagi fjallar framkvæmdaáætlunin um rannsóknir á sviði barnaverndar. Rannsóknir á sviði barnaverndar eru mikilvægar til þess að öðlast betri skilning á barnaverndarþjónustu á landinu og áhrifum ólíkra úrræða á líf barna og fjölskyldna þeirra. Mat á árangri barnaverndarúrræða er mikilvægt til þess að skilja með hvaða hætti megi bæta og þróa þjónustu auk þess sem rannsóknir gætu veitt greinargóðar upplýsingar um það sem betur mætti fara í barnaverndarstarfi. Slíkar upplýsingar eru einnig mikilvægar fyrir stefnumótun í málaflokknum.

Níunda aðgerð áætlunarinnar fjallar um húsnæði fyrir þjónustu í þágu farsældar barna. Annars vegar mælir framkvæmdaáætlunin fyrir um að unnið sé að uppbyggingu miðstöðvar fyrir þjónustu í þágu farsældar barna þar sem starfsemi Barna- og fjölskyldustofu, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og nýrrar þjónustustofnunar á sviði menntamála verður komið fyrir í sameiginlegu húsnæði eða svokallaðri Deiglu. Vonir standa til þess að um verði að ræða brautryðjandi verkefni og fyrirmynd fyrir nýtingu húsnæðis hjá ríkinu þar sem hagræði og samlegð, ekki síst út frá sjónarmiði barna og fjölskyldna, verði höfð að leiðarljósi. Hins vegar er í framkvæmdaáætluninni fjallað um meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu fyrir unglinga sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda, eða afplána óskilorðsbundna fangelsisdóma. Unnið hefur verið að þessu verkefni undanfarin ár og mikilvægt að fylgja því eftir enda mikil þörf fyrir slíkt úrræði. Gert er ráð fyrir að heimilið verði í þremur aðskildum hlutum þar sem rými verði fyrir sex til átta börn sem þurfa sérhæfða meðferð á meðferðarheimili vegna alvarlegs hegðunar- og/eða vímuefnavanda. Þá er m.a. gert ráð fyrir að heimilið geti tekið á móti unglingum á aldrinum 15 til 17 ára sem þurfa að afplána fangelsisdóma á forsendum meðferðarþarfar í stað fangelsis.

Tíunda og síðasta aðgerð framkvæmdaáætlunarinnar fjallar um eftirfylgni með áætluninni sjálfri og innleiðingu hennar. Þar er m.a. gert ráð fyrir að skipaður verði sérstakur eftirfylgnihópur með fulltrúum frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Barna- og fjölskyldustofu.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til ársins 2027. Ég leyfi mér að leggja til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.