154. löggjafarþing — 13. fundur,  11. okt. 2023.

almannatryggingar.

138. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er hér að fjalla um frumvarp Flokks fólksins um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, aldursviðbót. Auk mín eru á þessu frumvarpi Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Oddný G. Harðardóttir og Tómas A. Tómasson. Öllum þingmönnum var boðið að vera á þessu frumvarpi og það er ánægjulegt að sjá að einn þingmaður studdi frumvarpið, sem er Oddný G. Harðardóttir frá Samfylkingunni, en aðrir sáu sér ekki fært að styðja þetta nauðsynlega mál.

1. gr. Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst skal réttur til aldursviðbótar haldast óbreyttur.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 150., 151., 152., 153. og nú á 154. löggjafarþingi eða í fimmta skiptið. Efni þess hefur verið uppfært til samræmis við breytta framsetningu á lögum um almannatryggingar. Á 152. löggjafarþingi bárust umsagnir um frumvarpið frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og Landssambandi eldri borgara. Umsagnaraðilar lýstu allir yfir stuðningi við frumvarpið. Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp ítrekuðu stuðning sinn við frumvarpið með umsögnum sem bárust á 153. löggjafarþingi.

Þegar örorkulífeyrisþegi verður 67 ára og öðlast rétt til töku ellilífeyris fellur niður réttur hans til aldursviðbótar. Við þetta tímamark skerðast greiðslur viðkomandi um þá upphæð sem nemur aldursviðbót hans. Þessi skerðing hefur mikil áhrif á ráðstöfunartekjur öryrkja og íþyngir þeim verulega. Rökin fyrir því að greiða aldursviðbót eru þau að aflahæfi viðkomandi skerðist til lengri tíma allt eftir því hve ungur viðkomandi er þegar hann er metinn til 75% örorku. Þau rök eiga við óháð því hvort viðkomandi er 66 eða 67 ára, enda er það svo að með fullkomnari læknavísindum hefur aflahæfi fólks aukist vel fram yfir 67 ára aldur. Þeir sem eru vinnufærir geta nýtt sér úrræði laganna til töku hálfs lífeyris eða nýtt sér frítekjumörk ellilífeyris en þeir sem eru óvinnufærir njóta þá engra slíkra úrræða. Því á aldursviðbótin ekki að falla niður við upphaf töku ellilífeyris.

Aldurstengd örorkuuppbót var samþykkt á Alþingi 12. desember 2003 og varð að lögum 1. janúar 2004. Aldurstengda örorkuuppbótin greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Þeir sem eru 18–24 ára fá 100%, eða 59.648 kr. Þeir sem eru 25 ára fá 95%, eða 56.694 kr. Síðan trappast þetta niður; 26 ára fær 53.700; 27 ára 50.700; 28–29 ára 44.700; 30–31 árs 38.000; 32–33 ára 32.000; 34–35 ára 26.800; 36–37 ára 20.000; 38–39 ára 14.900; 40–45 ára 8.900; 46–50 ára 5.968; 51–55 ára 4.476 og svo koll af kolli. Þeir sem fá minnst eru þeir sem eru 60–66 ára, eða 1.492 kr. Þetta sýnir svart á hvítu hvers konar kerfi hefur verið byggt upp hér á undanförnum árum í almannatryggingum. Það er alveg með ólíkindum að við skulum vera með þannig kerfi í dag að við skulum einhvern veginn ná því að flækja kerfið svo mikið að við erum að borga þeim sem eru 60–66 einhverjar 1.492 kr. Þetta er algjörlega galið. Það sem skiptir máli í þessu samhengi eru þeir yngstu sem fara á örorku 18 ára gamlir. Það er gersamlega óþolandi að við það eitt að verða 67 ára og fara á eftirlaun, eftir að vera búinn að vera inni í þessu kerfi alla tíð og þurfa að reyna að lifa af eða reyna hreinlega að tóra á þessum bótum, fái þeir minna út úr kerfinu en þeir höfðu áður.

Ég segi fyrir mitt leyti að ef eitthvað er ættu þeir að fá mun meira vegna þess að því eldri sem viðkomandi er, sem hefur verið í þessu kerfi og verið metinn 75% öryrki við 18 ára aldur, hann getur á engan hátt verið betur staddur þegar hann verður 67 ára. Ég tala nú ekki um ef viðkomandi einstaklingur er lamaður, t.d. frá hálsi og niður, fær ekki NPA-þjónustu og er vistaður á hjúkrunarheimili áður en hann verður 67. Þá er allt tekið af honum og vasapeningum hent í hann.

Ef við horfum á þetta í samhengi eru þessar 59.678 kr. fyrir skatt sem þarna er um að ræða ekki há upphæð. Það er eiginlega óskiljanlegt að þessi upphæð skuli detta út við það eitt að öryrki verði ellilífeyrisþegi. Tveimur árum eftir að lögin öðluðust gildi, og rúmlega það, skrifaði Helgi Seljan grein um kjarabætur eldri borgara undir titlinum „Aldurstengda örorkuuppbótin og 67 árin.“ Með leyfi forseta, segir þar orðrétt:

„Baráttan fyrir bættum kjörum aldraðra og öryrkja hefur oft verið nokkuð samofin en vissulega er um margt ólíku saman að jafna. Sannarlega hefur margt áunnist en allt of oft má segja um fetin fram á við: Of seint — of lítið.

Hafandi starfað um langt skeið að málefnum öryrkja er mér óhætt að fullyrða að einhver stærsti áfangasigurinn hafi unnist undir forystu Garðars Sverrissonar sem formanns Öryrkjabandalagsins þegar samkomulag náðist við ríkisstjórnina um aldurstengda örorkuuppbót sem næmi jafngildi grunnlífeyris öryrkja til þeirra sem öryrkjar hefðu verið alla tíð en uppbótin fór svo stiglækkandi eftir því sem örorkan kom til seinna á lífsleiðinni. Að vísu gerðist það dapurlega að ríkisstjórnin stóð ekki að fullu við loforð sín svo að stiglækkunin varð mun meiri en samið hafði í raun verið um. En fyrir stóran hóp öryrkja var hér um dýrmæta kjarabót að ræða og það fólk sem glímt hafði lengst við örorku fékk sinn hlut stórbættan. Ekki skal hér farið í þessa vanefndasögu en hennar má gjarnan minnast. Erindið með þessum línum var hins vegar það að vekja athygli á þeirri oft afar tilfinnanlegu kjaraskerðingu sem öryrkjar verða fyrir við það eitt að eldast, þ.e. að verða 67 ára, verða sem sé „löggilt gamalmenni“. Þá fellur nefnilega aldurstengda örorkuuppbótin niður því samkvæmt laganna hljóðan þá er viðkomandi ekki lengur öryrki heldur ellilífeyrisþegi og brúttótalan getur sem sé lækkað um meira en [59.678] þúsund á mánuði og það munar um minna.

Bæði Öryrkjabandalagið og samtök eldri borgara hafa knúið á um leiðréttingu, að ranglætið verði viðurkennt, en enn hefur ekkert verið aðhafst. Ekki þyrfti nú annað ákvæði inn í tryggingalöggjöfina okkar margbættu en svo einfalt viðbótarákvæði að saman mættu fara bætur ellilífeyrisþega og aldurstengd örorkuuppbót. Eru mér þá Karvelslögin svokölluðu í fersku minni, sjúklingatryggingin svokallaða, þar sem réttlát og eðlileg framkvæmd strandaði á að ekki var til ákvæði sem heimilaði bætur samkvæmt lögunum og almennar örorkubætur. Þetta þýddi sem sagt að öryrkjar sem fyrir viðbótarheilsutjóni urðu fengu ekki bætur samkvæmt sjúklingatryggingu Karvelslaganna, svo hlálega sem það nú hljómar. Þessu var loks kippt í liðinn og öllum þótti sjálfsagt réttlætismál þegar upp var staðið. Hvaða aðferð sem notuð kann að verða til leiðréttingar nú skiptir ekki máli heldur það að öryrkjar verði ekki sviptir þeim tekjum sem þeir fyrir 67 ára aldur áttu lagalegan rétt til.

Ég skora á Alþingi og stjórnvöld að láta þessa ósvinnu ekki líðast og leiðrétta það sem auðvitað á að vera meginsjónarmið að ekki sé unnt að hrifsa bætur af fólki sem það hefur réttilega notið aðeins af því að það er komið á vissan aldur.“ — Spáið í það.

„Grunngildi aldurstengdu örorkuuppbótarinnar fer þá vissulega fyrir lítið ef ekki verður leiðrétt.“

Við getum tekið sem dæmi inn í þetta á sínum tíma þegar allir flokkar á Alþingi samþykktu að króna á móti krónu skerðingin yrði afnumin. Við í Flokki fólksins vorum með skýr skilaboð: Króna á móti krónu skerðing verður afnumin. En því var breytt í meðferð þeirra sem völdin höfðu í 65 aura á móti krónu. 65 aurar á móti krónu er aðeins skárra en króna á móti krónu en vart má á milli sjá. Fólk sem er að reyna að átta sig á þessu kerfi á í miklum erfiðleikum með að komast að því hvernig bótaflokkur þeirra er útreiknaður. Það er löngu tímabært að við förum að taka á málefninu og sérstaklega hvað varðar skerðingu. Stjórnvöld þurfa að fara að afnema skerðingar að fullu, ef við mættum láta okkur dreyma um fullkomið kerfi þar sem væri miðað við það að reiknað væri út nákvæmlega hvað viðkomandi einstaklingur þarf að hafa til að geta lifað mannsæmandi lífi.

Fólk á vinnumarkaði safnar lífeyrissjóði, rúmum 15%, og það getur líka safnað séreignarsparnaði. Margir öryrkjar sem hafa aldrei farið út á vinnumarkað hafa enga tök á að afla sér slíkra tekna. Þar kemur séreignarsparnaðurinn blóðugast út vegna þess að hann skerðist ekki. Þess vegna ber okkur að sjá til þess að þeir sem eru í þessari aðstöðu og fæðast með þá byrði að þurfa að vera öryrkjar alla sína tíð séu ekki afskrifaðir sem heilbrigðir við 67 ára aldur og verði þá heilbrigð gamalmenni en ekki öryrkjar lengur og því megi taka af þeim þessa upphæð. Þessi upphæð ætti eiginlega að renna beint í vasa þeirra án skerðingar og skatta. Það væri hægt að gera þetta með því að tekjutengja þær ekki.

Því miður er ótrúlega mikið óréttlæti innbyggt í kerfið okkar. Þetta er eitt af því. Við sjáum líka á upptalningunni að það virðst einu gilda hvar gripið er niður hjá öryrkjum, það eru alltaf einhverjar skerðingar. Ég verð í því samhengi líka að benda á að það er óþolandi að við skulum vera með kerfi, og höfum viðhaldið því árum saman, sem skerðir eftir á, kerfi með þann umbúnað að ekki er einu sinni hægt að treysta skattskýrslum hvers árs. Kerfið setur tekjur á skattskýrslur, ekki hundruð þúsunda heldur jafnvel yfir milljón eða meira og þetta er skráð á skattskýrslu eins og viðkomandi hafi fengið þessar upphæðir en þetta er allt tekið af þeim ári síðar. Síðan koma stjórnvöld og segja: Hey, við vorum svo góð við öryrkjana. Við hækkuðum þá svo rosalega. Við settum þetta inn á skattskýrsluna, hundruð þúsunda eða jafnvel milljónir, og þeir hafa það svo miklu betra af því að þeir fengu þennan pening. Því miður er það bara ekki rétt. Þeir fengu aldrei þennan pening.

Það sem er ljótast af öllu er að þetta kemur hvergi fram, hvergi í opinberum gögnum, nema fólk grafi eftir því. Jú, þetta er til hjá Tryggingastofnun. Þetta er til hjá félagslega kerfinu, Reykjavíkurborg. Þessar upplýsingar eru alls staðar til en þær koma aldrei inn í kerfið þannig að hægt sé að reikna þetta út. Það er því eina leiðin, það eina sem við getum gert, og við eigum að sjá til þess að það verði gert og eigum að drífa í því, að greiða bætur á rauntíma, að allt sé reiknað upp á rauntíma þannig að þegar skattálagning hvers árs kemur fram sé hún rétt. Þá á að vera hægt að segja: Nákvæmlega þetta fékk viðkomandi öryrki á þessu ári.

Því miður er kerfið svo flókið að á sama tíma og einn öryrki er skertur um 100.000 kr. er annar skertur um milljón. Fólk með börn fær engar greiðslur í heilt ár. Það sem er verra er að þetta eru greiðslur sem kannski var dreift á þig í mörg ár, tvö til þrjú ár. Kerfið er svo undarlegt. Þá er ekki bara verið að svipta þig öllu frá Tryggingastofnun heldur er verið að svipta þig barnabótum, vaxtabótum. Þetta er mannfjandsamlegt kerfi og á ekki að líðast vegna þess að þarna er um veikt fólk að ræða og þá segir kerfið: Þú getur kært aftur á bak, þú getur dreift þessu. En þú átt ekki að þurfa að standa í því. Þú ert veikur einstaklingur og átt ekki að þurfa að standa í því að berjast við kerfið.

Bara núna í Morgunblaðinu í morgun kom fram skýrt að bæði umboðsmaður Alþingis og Landsréttur voru að dæma í máli einstaklings gegn Tryggingastofnun ríkisins sem einhverra hluta vegna hafði komist að því að hann skuldaði þeim rúmar 500.000 kr., 590.000 held ég. Viðkomandi var erlendis og gat því ekki varið sig. Hvað gerði Tryggingastofnun? Jú, þeir buðu ofan af henni íbúðina og sumarbústaðaland. Og hvað sagði umboðsmaður Alþingis? Þetta var ekki löglegt, þeir máttu þetta ekki. Hvað sagði Landsréttur? Þetta var ekki löglegt, þeir máttu þetta ekki. Hvar höfum við fleiri dæmi? Jú, við höfum einstakling á Suðurnesjum sem var borinn út vegna þess að einhver ríkur einstaklingur vildi kaupa íbúðina hans og fá að hirða af honum einhverjar 50 millj. kr.

Þessu fjárhagslega ofbeldi gagnvart þessu fólki verður að linna. Við getum ekki leyft okkur að vera í þannig þjóðfélagi að þeir einstaklingar sem eru að reyna að lifa í þessu kerfi séu beittir svona gífurlegu og óréttlátu fjárhagslegu ofbeldi, vegna þess að fólk getur ekki varið sig.

Ef við tökum bara þessar mánaðarlegu fjárhæðir, ef við tökum aldurstengdu uppbótina þá skerðist hún um 9%. Hún skerðist eins og örorkulífeyrir. Jú, hún skerðist. Sérstaka uppbótin, tökum hana sem dæmi. Vinstri græn og Samfylkingin komu henni á eftir hrunið. Nokkru seinna lækkaði sama ríkisstjórn almannatryggingar um 10% og lofaði að sjá til þess að það yrði fyrsta verk þeirra að hækka þegar betur áraði. Það var aldrei gert. Það var ein af þessum kjaragliðnunum sem var komið á. Þeir hækkuðu launin hjá sjálfum sér en skildu þessa hópa eftir, skildu þennan hóp eftir með sérstöku uppbótina, að það sé skert króna á móti krónu. En svo fundu þeir út fyrir ekki svo löngu síðan, voru fljótir að komist að því, hvernig þeir gætu sefað samviskuna; með því að setja þetta í 65 aura á móti krónu. Það var nú allur sá pakki.

Það merkilegasta við þetta — horfum bara á svar sem ég fékk frá hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra við spurningum sem ég lagði fyrir hann um hvernig skerðingar væru í almannatryggingakerfinu, sem er auðvitað stórmerkilegt fyrirbrigði. Ég bað um árið 2020, 2021 og 2022. Þar inni stendur aldurstengd örorkuuppbót. Skerðingar árið 2020 voru 338 milljónir, 2021 voru það 399 milljónir og 2022 voru það 317 milljónir, skerðingarnar á þessari litlu aldurstengdu uppbót. En við þurfum auðvitað ekkert að vera hissa á því að þessar skerðingar séu þarna inni vegna þess að árið 2020 voru samtals skerðingar í þessu kerfi 62 milljarðar og 28 milljónir, 2021 70 milljarðar og 184 milljónir, 2022 75 milljarðar og 70 milljónir. Þetta hækkar þarna á milli 2020–2021 um 8 milljarða og 2021–2022 um 5 milljarða. Hvað haldið þið að það verði í ár?

Ef við rýnum í þessar tölur er ellilífeyririnn skertur langmest. Það var 2020 um 42 milljarðar en 2022 er það komið yfir 51 milljarð. Örorkulífeyrir: 652 milljónir, 721 milljón og 560 milljónir. Endurhæfingarlífeyrir: 34 milljónir, 56 og svo 20 milljónir. Heimilisuppbótin, heimilisuppbót örorku og endurhæfingar og svo sérstök uppbót til framfærslu, sem ég var að tala um áðan; 6 milljarðar 2020, 7 milljarðar 2021, 8 milljarðar 2022. Sjáið þið mynstrið? Milljarður á ári.

Þetta er það kerfi sem fjórflokkurinn er búinn að byggja upp í ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, Framsókn, Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin og Vinstri græn. Þetta er kerfi sem við erum rosalega stolt af. Að vísu hefur hæstv. félags- og barnamálaráðherra sagst ætla að endurskoða örorkukerfið, en ekki almannatryggingakerfið. Sú vinnsla er í gangi. En er maður bjartsýnn? Nei. Er ég bjartsýnn á það að þessi aldurstengda uppbót nái í gegn? Já, ég held að hún geri það vegna þess að ef ríkisstjórnin ætlar virkilega að sýna að hún sé að endurskoða örorkukerfið í þessu kerfi þá verður hún líka að sýna að hún ætli að standa með þeim verst settu í þessu kerfi, unga fólkinu. Við getum alveg verið með það algerlega á hreinu að þeir sem hafa ekki lent inni í þessu kerfi munu aldrei vilja lenda inni í þessu kerfi og þeir sem hafa lent inni í þessu kerfi vilja helst ekki vera í þessu kerfi. Kerfið er það slæmt. Það segir okkur bara eitt: Okkur ber skylda til að endurskoða kerfið og okkur ber skylda til að taka almannatryggingakerfið í heild sinni og einfalda það þannig að hvert smábarn á Íslandi skilji kerfið. Við getum ekki verið með flóknasta kerfið á Íslandi handa því fólki sem er veikast og sagt svo bara við þetta fólk: Tryggingastofnun á að vera leiðbeinandi aðili en ekki refsiaðili. En hún er því miður refisaðili, eins og ég sagði, þegar við verðum vör við það að þau eru tilbúin að bjóða hús ofan af fólki fyrir einhverjar 500.000 kr. Það er eitthvað stórfurðulegt við þetta og það er stórgallað kerfi sem hagar sér svoleiðis. Og ég segi: Það er okkur til háborinnar skammar að við skulum leyfa okkur eina mínútu, einn dag, að vera þannig.

Ég vona núna að við tökum eitt skref hér og samþykkjum þetta vegna þess að þetta er það sem þarf til þess a.m.k. sjá til þess að það sé ekki verið að brjóta á þessu fólki þegar það verður 67 ára. Það er enginn betur staddur 67 ára en 66 ára eða 18 ára ef hann er í örorkukerfinu. Sá einstaklingur er miklu verr staddur þegar hann er kominn á 67 ára aldur og fer á eftirlaun. Hann á þar af leiðandi að halda öllum sínum réttindum og mun meira ef allt væri rétt gefið og við værum að fara eftir lögum og reglum, værum ekki með kjaragliðnunina, ef við hækkuðum almannatryggingar í samræmi við þróun launavísitölu og hækkuðum persónuafsláttinn í það sem hann ætti að vera, ef við uppreiknuðum hann, hann er 56.000 kr. í dag en ætti að vera 90.000. Ef við tökum þetta allt saman, hver væri þá staðan í dag? Jú, það væri sennilega enginn að fá minna en 400.000 kr. útborgað, skatta- og skerðingarlaust. Það er engin ofrausn. Það er enginn vandi að koma því á. Það eina sem þarf er vilji. Hvort þessi ríkisstjórn hefur vilja til þess efast ég um en það má alltaf vona.