154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

sala Íslandsbanka og ráðstöfun ríkiseigna.

[15:31]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Bankasala ríkisstjórnarinnar hefur nú fengið falleinkunn frá Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirliti Seðlabanka og umboðsmanni Alþingis. Hún hefur einnig fengið falleinkunn hjá formanni og varaformanni Framsóknarflokksins, bankastjórar og stjórnarformaður Íslandsbanka sögðu af sér og öxluðu ábyrgð og það á að leggja niður Bankasýsluna. Klúðrið er svo mikið að nú hefur formaður Sjálfstæðisflokksins ákveðið að axla ábyrgð með þeim nýstárlega hætti að gerast utanríkisráðherra. Þessi frjálslega túlkun á ábyrgðarhugtakinu færir okkur heim sanninn um það að oddvitar ríkisstjórnarinnar eru sammála Bankasýslunni í því að það að selja banka er meira list en vísindi, væntanlega einhvers konar gjörningur. Forsætisráðherra tönnlast á því að ríkisstjórnin standi styrkum fótum en við sjáum öll að þessi fullyrðing er óskhyggja og ekki í takti við raunveruleikann. Ríkisstjórn sem þurfti um helgina að blása til blaðamannafundar um að hún ætli ekki að hætta stendur ekki sterkt.

Viðreisn leggur áherslu á það að ríkiseigur verði seldar og að við klárum söluna á Íslandsbanka til að greiða niður skuldir og fara í innviðauppbyggingu. Nýr fjármálaráðherra hefur sagt það vera forgangsmál að halda sölunni áfram. Hæstv. forsætisráðherra hefur hins vegar sagt „að það sé talsvert langur vegur í það að við getum farið að ræða framhald á þessari sölu.“ Það liggur alveg ljóst fyrir að það ríkir vantraust í garð Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að eignasölu. Leyndardómar Lindarhvols og áfellisdómur allra eftirlitsstofnana í garð ráðherra flokksins á liðnum mánuðum segir þá sögu mjög skýrt. Það er mikilvægt að efla traustið á ný og því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé sammála nýja fjármálaráðherranum um að áframhaldandi sala á hlutum í Íslandsbanka sé forgangsmál og í ljósi þess að þingmenn Sjálfstæðisflokks og fráfarandi fjármálaráðherra hafa sagst vera ósammála áliti umboðsmanns, treystir hæstv. forsætisráðherra Sjálfstæðisflokknum til að selja meira í bankanum?