154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

föst starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri.

327. mál
[17:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, vissulega erum við sammála um að þetta getur tekið tíma og málið er gott og ég styð það. En það er ekki gott fyrir áframhaldið að lækka sig úr núllpunkti. Ef þú ætlar að hoppa yfir eins metra rá þá er betra að fara af núllpunkti heldur en að stíga niður um þrjú skref og þurfa að bæta við hálfum metra. Ég er að benda á að það er verið að gera 2% aðhaldskröfu á rekstur sem er ekki bara í járnum heldur vantar 600 milljónir inn í. Ég hlýt að endurtaka spurningu mína til hv. þingmanns: Mun hann sætta sig við að það sé gerð 2% aðhaldskrafa á Landhelgisgæsluna? Líkurnar á því að þetta birtist með ásættanlegum hætti í næstu fjármálaáætlun og við sjáum inn í framtíðina að þetta verði gerlegt minnka auðvitað ef við erum að gefa eftir. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um það? Væri ekki líklegra að við gætum tekið skref upp á við ef við höldum a.m.k. í horfinu? Ég hlýt þá bara að endurtaka það þó að ég viti að hv. þingmaður er í andsvörum við mig en ég ekki við hann, en ég hlýt að endurtaka það: Mun hv. þingmaður sætta sig við 2% aðhaldskröfu á stofnun sem berst í bökkum?