154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[17:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég fékk þá samlíkingu í hausinn þegar ég var að hlusta á hv. þingmann lýsa þessu frumvarpi að mikið væri nú gott að hafa ríkisstjórnarfrelsi. Segjum sem svo að ég hefði kosið Vinstri græna en þau fara síðan í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og ég sé bara ósammála því og vilji ekkert þessa ríkisstjórn og ætla bara að segja mig frá því oki í rauninni sem sú ríkisstjórn setur á mig og ég vilji færa atkvæði mitt eitthvert annað. Smá samlíking í því einhvern veginn, þó að viðkomandi kjósandi sé ekki sammála forystunni hefur hann samt ekkert úrræði annað en að hlíta þeim lögum sem ríkisstjórnin kemur í gegn, þeirri skattheimtu og þess háttar sem er sett hér. Mér finnst það ekkert rosalega ólíkt þessu því að dæmin sem við höfum um það þegar félagafrelsið er á þann hátt að fólk geti staðið utan þessa sameiginlega apparats sem er að deila og semja um kaup og kjör sýna að í þeim löndum hefur réttindum hrakað eins og t.d. í Bandaríkjunum. (Gripið fram í.) Ég skil mjög vel hvaðan hv. þingmaður kemur með þessa tillögu en hættan er samt til staðar. Það er ítrekað skotist fram hjá lögum um alls konar skilyrði varðandi ráðningar og þess háttar sem getur leitt til þess að þrátt fyrir það sé ólöglegt þá ráði vinnuveitandi einungis einhverja sem eru í einu verkalýðsfélagi frekar en öðru og það eru bara atriði þarna sem eru varhugaverð. Ég væri alveg til í að skoða þetta í stærra samhengi, eða ekkert endilega stærra, en samhengið í öllu þessu, (Forseti hringir.) því að rétturinn til þess að vinna saman er tvímælalaust mjög mikilvægur og þegar einhver (Forseti hringir.) ákveður að standa fyrir utan þann rétt þá grefur það undan rétti allra og frelsið endar einmitt þar sem það skaðar aðra.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill áminna þingmenn um að virða tímamörk sem eru tvær mínútur í andsvörum.)