154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:14]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í dag er sérstök umræða um málefni aldraðra, sem er gríðarlega mikilvægt málefni. Ég brenn fyrir mörgum málum sem snerta eldri borgara og erfitt að gera því skil í aðeins tveggja mínútna ræðu. En það helsta sem brennur á mér og ég vil koma að í ræðu minni er tvennt: Hið fyrra er skertur aðgangur eldri borgara af landsbyggðinni að sérfræðiþjónustu, vegna þess að í flestöllum tilvikum þarf að sækja þá þjónustu suður. Ég hef reynslu af því frá Austurlandi. Stór hluti eldri borgara treystir sér ekki heilsu sinnar vegna í langt ferðalag og verður þannig af nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Ég tek bara eitt augljóst dæmi er varðar augnlæknaþjónustu: Á Austurlandi er engin augnlæknaþjónusta. Þeir hafa komið mögulega tvisvar til þrisvar á ári og þar gildir: Fyrstur kemur, fyrstur fær, sama á hvaða aldri einstaklingarnir eru. Augljós lausn við augnlæknavandanum er að nota nýjustu tækni eins og viðhöfð er í Vestmannaeyjum, með tækjakosti og fjarheilbrigðisþjónustu. Þessari aðferðafræði verður að flýta, sem og almennri fjarheilbrigðisþjónustu til að jafna aðgang okkar allra óháð aldri og búsetu.

Hitt málefnið sem mig langar að fjalla um varðar þörfina á aukinni alhliða þjónustu til eldri borgara. Fráflæðisvandi Landspítalans er oft nefndur og er alvarlegur. Stór hluti þess hóps sem ekki næst að útskrifa eru eldri borgarar því þeir komast ekki í viðeigandi úrræði. Hæst heyrist þó í þeirri áherslu að byggja þurfi hjúkrunarheimili sem lausn við þeim vanda. Við verðum auðvitað að gera mun betur í þeirri uppbyggingu en mig langar einnig að beina sjónum mínum að stórum hópi eldra fólks sem er á Landspítalanum og vill komast heim til sín í sitt eigið húsnæði en getur það ekki því að viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónusta er ekki í boði. Við viljum öll geta búið á okkar eigin heimili eins lengi og heilsan leyfir með viðeigandi þjónustu. Stórefla verður því alhliða þjónustu, bæði heimahjúkrun og alhliða félagslega þjónustu. Það skref myndi gera stórum hluta eldra fólks kleift að vera lengur heima við í eigin umhverfi. En uppbygging hjúkrunarheimila verður einnig að vera mun öflugri þannig að eldra fólk sem hefur búið heima með viðeigandi þjónustu geti þá komist inn á hjúkrunarheimili þegar aukinn heilsubrestur gerir vart við sig og sólarhringsþjónusta er nauðsynleg.