154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

fundur aðildarríkja samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum.

375. mál
[16:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Af því að hann nefndi þær yfirlýsingar sem komu frá NATO-ríkjunum sem mættu á fyrsta aðildarríkjafund samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum þá get ég staðfest að allt sem hann sagði er satt og rétt. Ég var í salnum og heyrði þessar bandalagsþjóðir Íslands mæta á staðinn; voru með smá skeifu, voru í smá fýlu, en voru alla vega mætt til þess að vinna samninginn áfram, eiga í samtalinu sem er svo mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess að það er yfirlýst stefna Atlantshafsbandalagsins, eins og Íslands, að stefna í áttina að heimi án kjarnavopna. Aðgerðirnar í þá áttina eru hins vegar ekki sjáanlegar. Og vegna þess að hæstv. ráðherra nefndi að nú væri búið að fækka kjarnavopnum um einhverja geigvænlega tölu frá hápunkti kalda stríðsins þá er það náttúrlega rétt. En það breytir því ekki að sú fækkun sem hefur átt sér stað á allra síðustu árum snýst einvörðungu um gamalt drasl frá kalda stríðinu, snýst um sprengjur sem ríkin munar ekkert um að farga.

Hins vegar þegar horft er á þann hluta vopnabúrsins sem er til reiðu, er nothæft og uppfyllir kröfur sem her 21. aldarinnar gerir til vopna, þá eru þær tölur að aukast. Þær jukust 2019 hjá Bandaríkjunum en lækkuðu síðan 2020 og 2021 hjá Bandaríkjunum. Bretland boðaði töluverða aukningu á þessum hluta. Hér er allt að stefna mögulega í ranga átt. Þess vegna skiptir svo miklu máli að Ísland mæti. Helst myndi ég vilja gera eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hefur lagt til, eins og þriðjungur þingheims hefur lýst því yfir að við viljum, að Ísland gerðist einfaldlega aðili að kjarnavopnabannssamningnum. En ríkisstjórnin er ekki til í það þannig að ég sætti mig við það næstbesta, að fulltrúar okkar mæti í salinn og eigi í uppbyggilegu samtali, (Forseti hringir.) alveg eins og Noregur, alveg eins og Svíþjóð og Finnland, alveg eins og Belgía og Holland gerðu síðast. Öll þessi ríki sem eru geópólitískt í sömu stöðu og Ísland þessa dagana, (Forseti hringir.) þau hafa dug í að mæta, með smá skeifu, í smá fýlu, en mæta þó og þoka þannig umræðunni bæði NATO megin og hjá bannsamningnum í rétta átt.