154. löggjafarþing — 23. fundur,  6. nóv. 2023.

opinber störf á landsbyggðinni.

346. mál
[17:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir sitt innlegg. Það er gott að fá fram þetta sem ráðherrann talar hér um og gott að vita að vinna sé komin í gang vegna sýslumannanna. Ég er sammála því að þetta eigi að vera þjónustumiðstöð í héraði. Það er mjög mikilvægt. Verið er að sinna talsvert mikilli nærþjónustu þó að sumir haldi kannski að það sé ekki alltaf þannig. Þegar Ólöf Nordal heitin var innanríkisráðherra vorum við að tala um þessi mál og um það að færa líka verkefni frá undirstofnunum ráðuneytisins. En ég er líka sammála því að þetta skiptir allt máli; samvinna ráðuneyta, líka við sveitarfélögin, ekki síst til þess að hafa þjónustuna í nærumhverfinu. Þar þurfa allir líklega að gera betur og öll ráðuneyti þurfa svo sannarlega að gera betur.

Ég er ánægð að heyra að það standi til að fjölga þjónustusamningunum enn frekar til framtíðar litið. Auðvitað er bagalegt, eins og þegar hér var opnuð með pompi og prakt starfsstöð Persónuverndar á Húsavík fyrir örfáum árum eða misserum síðan, að það fyrsta sem fari þegar stofnunin þarf að sýna aðhald séu störfin sem eru lengst í burtu. Ég hef ekki séð rök fyrir því af hverju það hentar betur en að fækka þeim hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar ég flutti framsögu með meirihlutaáliti fjárlaganefndar þá nefndi ég það að meiri hlutinn taldi að það væri mikilvægt að sýna pólitískt aðhald í þessum efnum er varða störf í dreifðum byggðum og taldi brýnt að aðhald ríkisstofnana kæmi ekki niður á störfum í hinum dreifðu byggðum. Hann leggur því til að gerð verði greining á fjölda opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins með tilliti til staðsetningar þeirra og þróunar starfsmannafjölda og stöðugilda síðastliðin fimm ár, og þess fjölda starfa sem flust hefur aftur til höfuðborgarsvæðisins vegna búferlaflutninga starfsfólks. Eins og ég sagði hér áðan er stundum betra að hafa störf með staðsetningu en án hennar þannig að þau fari ekki endilega þótt starfsmaðurinn ákveði að taka sig upp, heldur tilheyri samfélaginu ef þess er nokkur kostur.