154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

Sameining framhaldsskóla.

[14:24]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mjög brýnt mál. Ég ætla að leyfa mér að ræða almennt um stöðu framhaldsskólanna. Ég get haft fullan skilning á því að Akureyri vilji bjóða upp á tvo framhaldsskóla, annars vegar Verkmenntaskólann og hins vegar Menntaskólinn á Akureyri. En til lengri tíma litið verðum við að hugsa um framtíð framhaldsskólakerfisins. Núna í september kom út skýrsla frá OECD sem ber á ensku nafnið „Education at glance“, virðulegur forseti, ég hef ekki góða íslenska þýðingu á þessu. (Gripið fram í: Glansandi menntun.) En þar kemur skýrt fram að lykillinn að því að mæta aukinni eftirspurn eftir faglærðu vinnuafli og til að aðlagast breytingum á vinnumarkaði er einmitt starfsnámið. Niðurstöðurnar sýna að mun lægra hlutfall ungmenna hér á landi er í starfsnámi og færri hafa klárað námið á tilsettum tíma. Jafnframt sýnir þessi skýrsla að hlutfall karla með háskólamenntun er lágt á Íslandi og fer enn lækkandi. En hlutfall framhaldsskólanema í starfsnámi er sem sagt 31% á Íslandi borið saman við hin Norðurlöndin. Í Noregi er það t.d. 52%, 68% í Finnlandi, sem við horfum oft til, og 44% að meðaltali í OECD-löndunum.

Hér heldur fulltrúi Samfylkingarinnar því fram að þetta hljóti að snúast um svelt mennta- og velferðarkerfi. Það er ekki staðan því að einmitt þegar horft er á fjármögnun á skólakerfinu á Íslandi kemur fram að það fara töluvert meiri fjármunir í skólakerfið á Íslandi en að meðaltali í hinum OECD-löndunum. Þannig fara 6,3% af vergri landsframleiðslu í útgjöld vegna menntunar. Það er vissulega rétt að við erum lægri þegar kemur að háskólakerfinu en mun hærri þegar kemur að grunnskólakerfinu og líka í framhaldsskólakerfinu en þó minna þegar kemur einmitt að starfsnáminu.

Á sama tíma og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að halda áfram með vinnu um framtíð framhaldsskólakerfisins okkar og mikilvægi starfsnáms þá þarf að sjálfsögðu að leggjast aftur yfir þessar tillögur sem uppi hafa verið. En stóra málið hlýtur að vera að við þurfum að efla starfsnám. Það þarf að vera hægt að bjóða upp á fleiri möguleika í starfsnámi. Til þess þarf fleiri rými og eflaust aukna fjármuni, en þeir fjármunir eru þegar til í kerfinu.