154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

71. mál
[16:52]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður nefnir höfuðborgarsáttmálann þar sem sest var niður með ríkinu og skrifað undir það samkomulag og þá var ríkið að skuldbinda sig til að taka þátt í verkefninu. En erum við þá með þessu, höldum bara áfram með Skógarströndina — að við finnum bara einhvern áhugasaman fjárfesti til að klára það eða Vatnsnesveginn. Þurfum við þá ekki að fá ríkið í upphafi til að gangast undir samkomulag um það að þeir greiði einhvern hluta af verkefninu? Við getum alveg verið sammála um að veggjöld geta verið — og sérstaklega með þessari aukningu umferðar ferðamanna um svæðin, einkum á þessum vegum, að við gætum við nýtt þá betur til tekjuöflunar. Þarf ekki ríkið að koma að samkomulagi í upphafi framkvæmdar? Mig langar að spyrja að því í síðara andsvari. Erum við þá ekki komin hringinn og erum við ekki komin inn í samgönguáætlunina aftur?