154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

71. mál
[16:53]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ja, þetta er kannski einhver míníútgáfa af einmitt því sem við erum að gera á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum verið með ýmsar hugmyndir í PPP-verkefnum og slíku, það er raunverulega að fjárfestar hafi aðkomu að málum. Og auðvitað verður að vera samningur um hvernig standa eigi að málum áður en farið er í verkefni. Við erum ekki að tala um að hér sé opinn reikningur um aðkomu ríkisins. Það er vilji í landinu í dag nú þegar til þess að koma að svona verkefnum, inn í framkvæmdir. Þannig að ég held að það sé bara fullkomlega kominn tími til þess — fullkomlega kominn tími til þess — að við nýtum okkur þau tækifæri og skoðum hvaða möguleikar eru í þeirri stöðu sem slíkt skapar. Eins og með Skógarströndina, við vitum það bæði tvö, sá sem hér stendur og hv. þingmaður, að t.d. fyrir flæði ferðaþjónustu af Snæfellsnesinu og yfir í Dalina og síðan áfram á Vestfirðina er náttúrlega hamlandi að hafa þennan slæma veg, eins og við þekkjum á Skógarströndinni í dag. Hann er satt að segja oft og tíðum alveg ferlegur, ferlega lélegur, en það skapast ýmsir möguleikar. Þess vegna verður að nýta þá möguleika og skoða vel hvort þetta sé eitthvað sem hægt er að byggja á. Og af hverju ekki að láta reyna á þetta, hvort þetta sé möguleiki? Maður heyrir um að hér séu fjárfestar að fjárfesta í innviðum á Íslandi sem eru tilbúnir að koma að málum og skoða þetta ígrundað. En lykilatriðið sem við hljótum þá að vera sammála um, ég og hv. þingmaður, er að þegar farið er af stað þá séu forsendurnar skýrar, á hvaða forsendum við erum að fara í verkefnið og byggja á því. Það má ekki vera þannig að hér sé einhver opinn reikningur þar sem menn sækja í opinbert fé, í ríkissjóð um að redda alltaf hlutum eftir á. Þannig að ég sé ekkert nema mjög gott og aukavalmöguleika með þessu verkefni sem við þurfum svo sannarlega á að halda í innviðauppbyggingu á Íslandi vegna þess að (Forseti hringir.) þar er af nógu að taka. Meira af því síðar.