154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefni sérstaklega fjármagnið í þessu samhengi vegna þess að það liggur alveg fyrir ef maður skoðar til að mynda fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins frá árinu 2017, ef við tökum frá nýja Landspítalann sem er ekki að nýtast fólki í rekstri í dag, þá hafa þær staðið í stað þrátt fyrir að hjúkrunarþyngd hafi aukist og öldrunarþyngd aukist. Frá þessum sjúkrastofnunum, sem eru oft beintengdar m.a. við heilsugæsluna, hafa komið ítrekaðar kvartanir til fjárlaganefndar á undanförnum misserum um að þar hafi fjárveitingar ekki fylgt launakostnaði, ekki verðlagi og þær standi víða mjög illa. Það er líka þekkt fyrirbæri á sumum stöðum að það sé verið að reyna að færa úr einum sjóði í annan, beint af sjúkrastofnun yfir í aðra þætti.

Ég held að við hljótum öll að standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort t.d. ein af ástæðunum fyrir því að fólk vill síður setjast að fyrir utan höfuðborgarsvæðið sé til að mynda starfsaðstæður. Ég veit að þær eru heldur ekki auðveldar hér í bænum en sérstaklega út af þessu aukna álagi sem hv. þingmaður kemur inn á, að vera einn á svona stað t.d. sem læknir eða hjúkrunarfræðingur, þá hljótum við að geta sammælst um að setja þrýsting á ákveðna aðila í þessari ríkisstjórn um að setja meira fjármagn til þessara sjúkrastofnana. Því velti ég því aftur upp hvort það sé eitthvað sem Framsóknarflokknum hugnist í þessu samhengi vegna þess að við höfum fengið skýr skilaboð frá þáverandi hæstv. fjármálaráðherra um það, og ég geri ráð fyrir að núverandi fjármálaráðherra sé á þeirri skoðun, að vandi heilbrigðiskerfisins sé ekki fjárveitingavandi heldur mönnunarvandi en við vitum mætavel að þessir tveir þættir tengjast. Þannig að ég bara impra á þessu svona í lokin, hvort það sé vilji innan Framsóknarflokksins til þess að við gefum aðeins í. Það eru enn þá nokkrir dagar í 2. umræðu fjárlagafrumvarps og ég veit til að mynda að Landspítalann vantar 700 milljónir og það er spurning hvort hæstv. heilbrigðisráðherra væri ekki til í að veita þær.