154. löggjafarþing — 26. fundur,  9. nóv. 2023.

eftirlit með störfum lögreglu.

[10:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 7. þm. Suðvest. fyrir fyrirspurnina. Það liggur fyrir að í samráðsgátt hefur ráðherra lagt drög að frumvarpi til breytinga á lögreglulögum. Við bíðum þar umsagna og umsagnarfrestur er núna til loka þessarar viku. Ráðherra hefur í framhaldinu hug á því að taka tillit til þeirra umsagna sem þar munu berast og í framhaldinu að leggja lögreglufrumvarpið fram á þingi. Markmiðið með þessu frumvarpi er að skýra heimildir lögreglu til afbrotavarna. Það er mín ábyrgð sem dómsmálaráðherra að tryggja að löggæsla í landinu sé í stakk búin til að takast á við flóknar áskoranir og breyttar aðstæður. Af þeirri ástæðu þarf bæði að skýra og veita lögreglu auknar heimildir en á sama tíma að stórauka eftirlit með þeim heimildum sem lögreglu verða veittar og það er ráðherra að leggja fram hér með þessu frumvarpi.

Hér er verið að leggja til markvissar aðgerðir til að varna afbrotum en það er grundvallaratriði til að halda uppi allsherjarreglu og lögum í landinu. Lögreglan fær auknar ábyrgðir ef frumvarpið verður samþykkt, það er ljóst. Ég legg áherslu á það að auknum heimildum fylgir ábyrgð og, eins og ég nefndi, stóraukið eftirlit með störfum lögreglu, bæði ytra og innra, en einnig eftirlit til þingsins sem lögreglan mun þurfa að skýra með reglubundnum hætti; skila skýrslu til Alþingis.