154. löggjafarþing — 27. fundur,  9. nóv. 2023.

afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

469. mál
[13:02]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt. Það er ánægjulegt að Alþingi Íslendinga skuli hafa getað reist sig upp yfir þær deilur sem oft eru í þessum sal vegna þess að málið sem hér er undir er svo miklu, miklu stærra en svo að við eigum að réttlæta það fyrir sjálfum okkur að það kljúfi okkur. Það er einfaldlega þannig að fórnarlömbin í þessum hildarleik fyrir botni Miðjarðarhafs eru almennir borgarar og það er ósköp einfaldlega þannig að við erum öll þannig innréttuð að við viljum ekki að almennir borgarar, venjulegt fólk, deyi í stórum stíl vegna þess að stríðandi fylkingar geta ekki komið sér saman um að halda friðinn.

Það er mjög ánægjulegt að utanríkismálanefnd Alþingis skyldi hafa náð þessari lendingu og þingflokkur Viðreisnar styður þessa þingsályktunartillögu heils hugar.