154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

eingreiðsla til eldri borgara.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það þarf bara að hækka fjárlög um 138 millj. kr. svo greiða megi verst setta aldraða fólkinu 66.381 kr. skatta- og skerðingarlausa eingreiðslu í desember eins og öryrkjar fá. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins er um 2.080 einstaklinga að ræða. Í þeim hópi eru 1.032 öryrkjar sem fá nú ellilífeyri í stað örorkulífeyris. Full eingreiðsla orlofs- og desemberuppbótar til ellilífeyrisþega eru 117.526, 40% eru greidd sem orlofsuppbót en 60% greidd 1. desember sem desemberuppbót. Eingreiðslan skerðist samkvæmt 20. gr. laga um almannatryggingar uns hún fellur alveg niður. Er ekki kominn tími til þess að orlofs- og desemberuppbót skili sér óskert til allra sem eru á lífeyrislaunum almannatrygginga?

Hækkun almannatrygginga um næstu áramót er 4,9% samkvæmt fjárlögum. Hvers vegna í ósköpunum er bara verið að hækka lífeyrislaun almannatrygginga um 4,9% þegar hækkun til frjálsra fjölmiðla samkvæmt vísitölu á launahækkunum er 10,6%? Spáið í það að þetta er nær 6% hærra en öryrkjar og aldrað fólk fær í fjárlögum. Hæstv ráðherra, hvernig er þetta reiknað út og hverjir gerðu það?

Ætlar hæstv. ráðherra að sjá til þess að 2.080 allra verst settu eldri borgararnir fái 66.000 kr. eingreiðslu skatta- og skerðingarlaust núna í jólabónus, en af þeim eru 1.032 öryrkjar eins og áður hefur komið fram? Mun hæstv. ráðherra einnig sjá til þess að hækka lífeyrislaun almannatrygginga um 10,6% eins og hjá frjálsum fjölmiðlum en ekki bara um 4,9% eins og er í fjárlögum? Mun hæstv. ráðherra sjá til þess að orlofs- og desemberuppbót skili sér skerðingarlaust til allra þeirra sem eru á lífeyrislaunum? Því að núna í dag er stór hópur ellilífeyrisþega sem fær ekki krónu í orlofs- eða desemberuppbót bara vegna þess að þeir eiga lífeyrissjóð. Það er fáránlegt.