154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[17:19]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér í dag er lagt fram í því skyni að vernda afkomu þeirra sem hafa orðið fyrir þeim náttúruhamförum sem riðið hafa yfir Grindavíkurbæ og geta ekki gegnt störfum sínum. Þegar hættustigi almannavarna var lýst yfir fyrir um tíu dögum síðan vegna jarðskjálfta norðan við Grindavík og í framhaldi lýst yfir neyðarstigi og bærinn rýmdur var ljóst að um fordæmalaust ástand væri að ræða á svæðinu. Óvissan er því mikil og hér er um að ræða skref í rétta átt til að koma til móts við þá óvissu og reyna að eyða henni að einhverju leyti.

Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu er hér ætlað að tryggja tímabundinn stuðning vegna launa þess fólks sem vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ getur ekki gegnt störfum sínum. Það á svo sannarlega líka við um fólk sem býr utan svæðisins en sækir vinnu í Grindavík. Um er að ræða stuðning til greiðslu launa starfsfólks á almennum vinnumarkaði en gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög greiði áfram fólki sínu laun. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimilt verði að uppfylltum tilteknum skilyrðum að veita starfsfólki tímabundinn stuðning vegna launataps upp að ákveðnu hámarki þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekenda þess. Einnig er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundinn stuðning og eins og hér kom fram í umræðunni áðan er það afskaplega mikilvægt.

Hæstv. ráðherra hefur farið ágætlega yfir þær upphæðir sem hér um ræðir en það er mikilvægt að taka fram að einnig er gert ráð fyrir 11,5% viðbótarstuðningi, að hann sé greiddur í mótframlag í lífeyrissjóð, þannig að heildarfjárhæð stuðnings getur numið rúmum 700.000 kr. fyrir hvern einstakling. Þá er lagt til að ef komi til útgreiðslu arðs af hálfu atvinnurekanda sem fengið hefur umræddan stuðning verði að endurgreiða þann stuðning. Hér í umræðunni fyrr í dag, virðulegi forseti, var aðeins sett spurningarmerki við þetta og hversu mikilvægt það væri að eyða allri óvissu sem af þessu gæti hlotist og ég vænti þess að hv. velferðarnefnd taki vel utan um þann þátt málsins svo að frumvarpið geti náð fram að ganga.

Það er vissulega mikilvægt að tryggja afkomu íbúa og Grindavíkur og þeirra sem nú geta ekki sinnt störfum sínum á svæðinu. Við þurfum að tryggja húsnæðisstuðning, félagslegan stuðning og fjárhagslegan stuðning og er þetta frumvarp liður í því. Það er unnið að útfærslu í húsnæðismálum til lengri og skemmri tíma en Grindvíkingar eru ekki einsleitur hópur og mikilvægt að mæta þörfum hvers og eins. Mér skilst að komið verði upp símaveri vegna húsnæðismála og að það verði opnað í dag og held ég að það sé mjög þarft að veita góðar upplýsingar þeim sem á þurfa að halda.

Rétt fyrir þessa ágætu umræðu hafði ég tækifæri til að heimsækja þjónustumiðstöðina í Reykjavík sem komið hefur verið upp. Þar eru allir Grindvíkingar hvattir til að koma og njóta samveru. Hjá þjónustumiðstöðinni er einnig hægt að fá ýmsar upplýsingar. Mér skilst á fréttum að þar hafi verið að koma saman um 100 manns á dag nú þegar og sýnist mér sú umgjörð öll með besta móti. Það er aðdáunarvert að sjá að starfsemi Grindavíkurbæjar skuli vera komin af stað í húsnæði Ráðhúss Reykjavíkur og á það ágæta fólk, kjörnir fulltrúar og embættismenn, þakkir skildar. Ég veit að sveitarfélögin á Suðurnesjum sýna einnig mikla samheldni og leita allra leiða til að koma og aðstoða nágranna sína í verki. Það sama má segja um önnur sveitarfélög á landinu þar sem Grindvíkingum er veittur allur sá stuðningur sem hægt er.

Virðulegi forseti. Eitt af því sem kom upp í spjalli mínu í dag við fólk frá Grindavík var upplýsingaóreiða. Það er mikilvægt fyrir stjórnvöld, Ríkisútvarpið sem hefur hlutverk í almannavarnaástandi og fjölmiðla að horfa til þess að ekki verði óþarfa upplýsingaóreiða. Ég tel að upplýsingafundir almannavarna séu mjög mikilvægir í því tilliti og raunar allar upplýsingar sem þurfa að koma frá stjórnvöldum á þessum tíma og á áframhaldandi óvissustigi. Eins og gefur að skilja hef ég verið í sambandi við marga Grindvíkinga að undanförnu eða allt frá því að atburðurinn átti sér stað sem við stöndum nú í miðjunni á. Það er kallað eftir fyrirsjáanleika eins og hægt er í ljósi aðstæðna. Við verðum því öll að leggjast á eitt. Það er jákvætt að umrætt frumvarp sé komið fram og ég vænti þess að það fái málefnalega umfjöllun á Alþingi og hægt verði að klára það sem allra fyrst.

Að lokum vildi ég segja það, virðulegi forseti, að hugur minn er hjá Grindvíkingum og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að draga úr áhyggjum þeirra í því ástandi sem nú við blasir og ég er sannfærður um það að þingheimur er sammála mér.