154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

móttaka flóttafólks frá Palestínu.

[15:30]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Heimsbyggðin hefur að undanförnu horft með hryllingi á innrásina á Gaza-ströndinni. Stöðugar árásir Ísraelshers síðustu vikur hafa leitt til dauða um rúmlega 15.000 íbúa Gaza, þar af um 6.000 barna. Þá er talið að á annað þúsund börn séu föst undir rústum heimila sinna. Það eru sláandi tölur. Til samanburðar eru það jafnmörg börn og búa í Hafnarfirði. Eins og gefur að skilja flýr fjöldi fólks þessar hræðilegar aðstæður og leitar skjóls í öðrum löndum.

Stúlkan Asil er þar á meðal. Hún er nýorðin 17 ára og liggur á spítala í Kaíró. Búið er að taka af henni annan fótinn. Hún er brákuð, brennd og brotin. Fjölskylda hennar var drepin í sprengjuárás á Palestínu fyrir fjórum vikum síðan. Hún á ekki foreldra lengur, systir hennar og systursonur hafa verið myrt og heimilið eyðilagt. Hennar nánasti aðstandandi, bróðir hennar, býr á Íslandi og er að berjast fyrir því að fá systur sína hingað í öruggt skjól en að öllu óbreyttu verður hún send aftur til Gaza um helgina. Efnt hefur verið til safnana til að styrkja Asil, bæði vegna lyfjakostnaðar og ferðar til að sækja hana, en tekið er fram að hennar eina von sé að komast til Íslands. Þetta kemur fram í texta í tengslum við söfnun fyrir Asil.

Hér á landi höldum við hins vegar áfram að senda fólk frá Gaza úr landi með því að beita Dyflinnarreglugerðinni. Þegar Rússland réðst inn í Úkraínu í fyrra var 44. gr. útlendingalaga virkjuð í fyrsta sinn sem heimilar fjöldavernd flóttamanna frá tilteknum svæðum. Það þýddi að það þurfti ekki að taka marga mánuði eða ár að fjalla um mál hvers og eins til að finna út hvort við gætum mögulega sent þau úr landi eitthvað annað. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki væri eðlilegt að beita sömu aðferðum núna (Forseti hringir.) til að taka á móti öllum þeim stríðshrjáðu flóttamönnum frá Palestínu sem drífa alla leið til Íslands og veita þeim skjóta vernd.