154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[18:31]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir ágæta framsögu og ekki síður fyrir að taka af skarið með að hv. atvinnuveganefnd óski eftir því að fá málið til þinglegrar meðferðar að lokinni 1. umræðu hér í þingsal.

Mig langar til að hafa nokkur orð um þetta mál og þessa stöðu sem er uppi vegna þess að staðreyndin er sú að eftir býsna mögur ár í þessum málaflokki er atvinnuveganefnd að vinna að tveimur málum sem varða raforkuöryggi. Annars vegar er þetta mál, frumvarp sem nefndin flytur sjálf um breytingu á raforkulögum, mál nr. 541 á þingskjali 635, um forgangsraforku, og hins vegar er endurflutt frumvarp orkumálaráðherra frá því í vor um breytingu á raforkulögum, raforkuöryggi og um er að ræða mál númer X, stendur á mínu blaði sem þýðir nú líklegast að ég er ekki með aðalskjalið en það er aukaatriði. Hv. þm. Óli Björn Kárason fór yfir það áðan hvaða mál það væri. Það mál er sem sagt í þinglegri meðferð atvinnuveganefndar en tilgangur þess máls er samkvæmt greinargerð að styrkja raforkuöryggi almennings með forgangsröðun, þ.e. að tryggja almenningi og smærri fyrirtækjum forgang komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika. Í því máli er líka mælt fyrir söfnun og miðlun upplýsinga varðandi raforkuöryggi á heildsölumarkaði sem og viðmið fyrir raforkuöryggi. Það atriði á sér ekki hliðstæðu í því máli sem við ræðum hér og ég ætla þá að láta umræðu um það tiltekna efnisatriði bíða umræðu um það mál.

Aftur að fyrri hlutanum af máli ráðherra, þetta með að tryggja almenningi og smærri fyrirtækjum forgang komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika. Það er margítrekað í þeim texta að þetta eigi við um óviðráðanlegar aðstæður, til að mynda vegna framboðsskorts — óviðráðanlegar aðstæður. Þetta orðalag kallar auðvitað strax á spurninguna hvort núverandi ástand orkumála á Íslandi flokkist sem óviðráðanlegar aðstæður. Það verður auðvitað hver að svara fyrir sig. Ég get svarað fyrir mig og sagt: Nei, það gerir það sannarlega ekki. En eftir sex ára eyðimerkurgöngu stjórnvalda í því skyni að tryggja raforkuöryggi, þar með talið heimila, raforkuframleiðslu, þá skil ég vel að stjórnvöld vilji reyna að mála stöðuna þannig upp að hér sé um óviðráðanlegar aðstæður að ræða.

Í flutningsræðu sinni 26. október síðastliðinn rakti hæstv. ráðherra orkumála, Guðlaugur Þór Þórðarson, efni frumvarpsins ágætlega og er ekki ástæða til að orðlengja það hér. Undir lok ræðu sinnar sagði ráðherrann, með leyfi forseta:

„… ég vil að gefnu tilefni upplýsa að Landsvirkjun hefur upplýst um að staða miðlunarlóna er slík að auknar líkur eru á að grípa þurfi til skerðinga í lok árs 2023 og á árinu 2024 ef vatnsstaðan breytist ekki til hins betra. Einnig eru komnar fram upplýsingar um að eftirspurn eftir grunnorku frá Landsvirkjun sé umfram framboð.“

Ráðherra beinir því þar með til atvinnuveganefndar að nefndin hafi hliðsjón af þessum nýju upplýsingum og taki til skoðunar hvort grípa skuli til frekari ráðstafana, eftir atvikum tímabundinna, til að tryggja fullnægjandi framboð á raforku til almennra heimilisnotenda og smærri fyrirtækja.

Mér finnst ástæða til að nefna þetta sérstaklega hér og gera athugasemdir við það að hér sé verið að láta í veðri vaka að um sé að ræða óviðráðanlegar aðstæður og þess vegna þurfi að grípa til þess að atvinnuveganefnd, á sama tíma hún er með til umræðu og úrvinnslu mál frá ráðherra sem á að tryggja raforkuöryggi, sé að flytja hér þingmannamál og sem betur fer er það svo að nefndin er einhuga um það að vinna málið áfram en það fái ekki það mikla flýtimeðferð að við fáum ekki svör við nauðsynlegum spurningum. Þetta er heimatilbúinn vandi, frú forseti.

Þá erum við sem sagt komin að þessu sem ég vildi ræða sérstaklega í tengslum við framlagningu þessa máls af hálfu atvinnuveganefndar. Ég er meðal flutningsmanna eins og fram hefur komið, enda ljóst að staðan er grafalvarleg. Þó svo að sú sem hér stendur hafi sitthvað að athuga við framgöngu stjórnvalda í orku- og öryggismálum þjóðarinnar þá er alveg ljóst að forgangurinn í þeirri stöðu sem nú er uppi liggur í því að tryggja orkuöryggi heimila og koma í veg fyrir mögulega, hugsanlega skerðingu á raforku til þeirra líkt og raunverulega er hætta á núna og hefur verið um einhvern tíma. Við þurfum hins vegar að tryggja nauðsynlega þinglega meðferð á þessu máli og umsagnir lykilaðila og því fagna ég því að framsögumaður hafi kallað málið inn á milli 1. og 2. umræðu.

Ég talaði í upphafi um mögur ár þegar kemur að raforkuöryggi heimila. Frá árinu 2005, þegar breytingar voru gerðar á orkulögum, hafa heimilin ekki notið forgangs þegar kemur að sölu á raforku, ekki samkvæmt laganna bókstaf, og þegar raforkukerfið er til viðbótar hreinlega uppselt og vel það, eins og hefur verið staðan síðustu ár, þá er hreinlega verið að leika happdrætti með orkuöryggi heimilanna. Það þarf engin óviðráðanleg atvik til, bara sofandi stjórnvöld.

Sögulega hefur svo verðlagning á raforku á heildsölumarkaði, þ.e. á markaði fyrir heimili og smærri notendur, verið hærri en á stórnotendamarkaði. Það hefur komið í veg fyrir leka á milli markaða, þ.e. að sölufyrirtæki raforku kaupi rafmagn af Landsvirkjun sem ætlað er heimilum og minni fyrirtækjum og selji áfram til stórnotenda. Frá lagabreytingunni 2005 hefur þessi staða verið ákveðin vörn og svo auðvitað sú staðreynd að kerfið hefur ekki alltaf verið uppselt. En nú er það staðan og því til viðbótar er verðið orðið það sama eða svipað á milli markaðanna, þ.e. á milli hins almenna markaðar, eða heildsölumarkaðar eins og það heitir, þar sem salan til heimila og minni fyrirtækja fer fram, og þess markaðar sem þar sem verið er að selja til stórnotenda. Þegar verðið er orðið svipað eins og nú er eftir endursamningu Landsvirkjunar við stórnotendur þá er enn meiri hætta á að heimilin verði út undan í samkeppninni um takmarkaða orku.

Nú virðist vera að raungerast sú hætta að raforkan sé seld fram hjá heimilum, svo ég vitni aftur í orð ráðherra úr flutningsræðu um hitt raforkumálið, að komnar séu fram upplýsingar um að eftirspurn eftir grunnorku frá Landsvirkjun sé umfram framboð. Það má að því leyti til sanns vegar færa að það er núna sem þörfin á þessu lagafrumvarpi sem atvinnuveganefnd vinnur að er orðin aðkallandi. Þetta hefur verið fyrirsjáanlegt lengi, það hafa verið færi til að bregðast við þessu lengi. Nú eru stjórnvöld komin upp að vegg og nú þarf að bregðast við. Tímafresturinn er einfaldlega liðinn.

Frumvarpið sem atvinnuveganefnd hefur sammælst um að leggja fram er hugsað sem tímabundin aðgerð til 1. janúar 2026, hefur vonandi fælingarmátt auk þess að stuðla að ábyrgri hegðun á markaði þar sem heimili og minni fyrirtæki eru í forgangi. En það er hins vegar mjög nauðsynlegt að fá nánari útskýringu á því hvað stjórnvöld, ráðherra orkumála og stjórnarmeirihlutinn hér telur að muni gerast í orkumálum þjóðarinnar fram til 1. janúar 2026. Það er eitt af því sem við munum forvitnast um í vinnslu nefndarinnar.

Þetta frumvarp sem síðan er í vinnslu nefndarinnar frá ráðherra sem var lagt fyrir þingið í vor og svo aftur núna án þess að hugsunin hafi verið höfð á því að bæta þessu ákvæði inn í, þar eru úrræðin nú af allt öðrum toga, þ.e. að neyðarúrræði verður ekki virkjað fyrr en öll önnur úrræði hafa verið nýtt, eins og skerðanleg orka hjá stórnotendum, t.d. vegna vatnsskorts eða raunverulega óviðráðanlegra atvika eins og náttúruhamfara eða meiri háttar bilunar eða annars slíks, ekki sofandi stjórnvalda.

Það er full ástæða fyrir þingið, atvinnuveganefnd, að bregðast við stöðunni og svo auðvitað fyrir þingið í heild líka. En það eru mikilvægar spurningar sem vakna hér sem þarf að fá svör við í vinnu nefndarinnar. Það er alveg ljóst að það er á okkar ábyrgð að tryggja orkuöryggi heimila, annars vegar með framleiðslu og síðan til að tryggja að heimilin njóti nauðsynlegs hlutar þeirrar framleiðslu sem er fyrir hendi. Það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta mál kippir markaðnum að ákveðnu leyti úr sambandi. Ég er þeirrar skoðunar að fyrir því þurfi að vera mjög sterk rök. Þau hafa verið færð fram hér að ákveðnu leyti en við þurfum að hafa það algerlega skjalfest að þetta er ef ekki eina leiðin þá sannarlega besta leiðin og það mun ekki hafa neikvæð áhrif og neikvæða hvatningu, öfugan hvata til raforkuframleiðslu. Þetta eru bara spurningar sem við þurfum að spyrja og fá viðbrögð við.

Ég ætla ekki að hafa frekari orð um þetta mál núna, tel í sjálfu sér ekki þörf á því, hef margt að segja en ég ætla að nota það svigrúm sem ég hef í vinnu atvinnuveganefndar til að leggja fram spurningar og fá svör og ég treysti því og hef enga ástæðu til að ætla annað en að atvinnuveganefnd sé einhuga um að vinna þetta mál þannig að sómi sé að og við getum lagt fram mál, hvort sem það er þetta óbreytt eða með nauðsynlegum breytingum til að inngrip okkar í markaðinn verði sem minnst en þó þannig að öryggi, rafmagnsöryggi, raforkuöryggi heimila og smærri aðila sé tryggt.