154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[20:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er takmörkuð orka til staðar. Það er ekkert flóknara en það, alla vega eins og er, tækniframfarirnar eru ekki orðnar það miklar enn sem komið er. Við kannski vorum heppin að hafa ekki farið alla leið og virkjað allar koppagrundir af því að í ljós komu gríðarleg verðmæti í ósnortinni náttúru fyrir einmitt ferðaþjónustuna. Það er eðlilegt að passa aðeins upp á varúðina af því að í ósnortinni náttúru liggja gríðarleg auðæfi sem við kannski þekkjum ekki öll enn þá. Hins vegar er það mjög augljóst út frá hlutdeild stóriðju í orkunotkun á Íslandi að við gengum of langt. Það var vissulega nauðsynlegt skref til þess að byrja uppbyggingu en í kjölfarið áttum við að reyna að huga að fjölbreyttari notkun á orkunni því að þó að við séum komin með orku og sjávarútveginn og ferðaþjónustuna og hugvitið og þess háttar þá eru mjög fáir aðilar innan orkunotkunarinnar. Alveg eins og við segjum að það sé slæmt fyrir sjávarútveginn að það séu fáir aðilar, því fákeppni og einokun og þess háttar er alltaf slæmt fyrir alla, þá er erfitt að orkugeirinn á Íslandi sé í rauninni undir fáum aðilum kominn því ef og þegar eitthvað gerist þá er hrunið þeim mun stærra.