154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

aðgerðir stjórnvalda í málum aldraðra og öryrkja.

[10:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin hefur hvað eftir annað hælt sér af því að hún hafi aldrei gert annað eins fyrir öryrkja, aldrei nokkurn tímann. Ég fer að halda að hún hafi tekið alræmda bræður í vinnu hjá sér; Íslykilsgám, Skerðingarstúf og Uppbótarkræki. Þetta eru þeir sem vinna fyrir ríkisstjórnina og þetta eru þeir sem á að kenna um hennar eigin klúður í þessum málum. Hugsið ykkur mannréttindabrotin sem verið er að fremja í dag gagnvart fötluðu fólki og öldruðu fólki — þau verða tekin til meðferðar í framtíðinni. Er það stefna þessarar ríkisstjórnar að í framtíðinni verði þessi mannréttindabrot til þess að það þurfi að borga sanngirnisbætur? Getið þið ekki einu sinni séð til þess að fólk geti t.d. notað íslykilinn? Ætlið þið að svelta fólk? Á það ekki að geta farið í banka, á það ekki að geta tekið út pening? Nú er búið að gera það þannig að mörg fyrirtæki eru farin að neita að taka við peningum sem er oft það eina sem aldrað fólk og fatlað fólk vill nota.