154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

áætlun og aðgerðir stjórnvalda varðandi útrýmingu fátæktar.

[10:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra um samfélagslegan kostnað vegna fátæktar kemur fram að 47.795 einstaklingar reiknast sem fátækir eftir að tekið er tillit til húsnæðisbóta og barnabóta, þar af um 9.400 börn. Samkvæmt nýrri vinnumarkaðsrannsókn Vörðu á stærsti hluti fatlaðs fólks erfitt með að ná endum saman, eða um 75%, ríflega þriðjungur býr við fátækt og helmingur metur fjárhagsstöðu sína verr en fyrir ári.

Í frægri ræðu árið 2017 sagði núverandi forsætisráðherra, með leyfi forseta: „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu.“

Afleiðingar fátæktar eru margvíslegar og birtast m.a. í nýrri könnun PISA þar sem fram kemur, með leyfi forseta:

„Hins vegar sýna greiningar á þróuninni síðasta áratug að tengsl félags- og efnahagsleg bakgrunns íslenskra nemenda við frammistöðu þeirra á sviðum lesskilnings og læsis á náttúruvísindi hafa aukist frá árinu 2015.“

Og einnig: „Ójöfnuður í lesskilningi hefur nánast tvöfaldast fyrir Ísland síðan árið 2000.“

Þau sem voru undir lágtekjumörkum sem börn reyndust vera um 50% líklegri til að vera það einnig á fullorðinsárum, líklegri til að vera á örorku, líklegri til að vera einstætt foreldri, líklegri til að vera látin.

Skýrsla forsætisráðherra, sem unnin var að beiðni hv. þingmanns Halldóru Mogensen, sagði að kostnaðurinn við að ná öllum yfir lágmarksframfærslu miðað við stöðu ársins 2020 gæti verið um 72 milljarðar og að samfélagslegur ávinningur þess að útrýma fátækt væri á bilinu 31–92 milljarðar.

Ég vil því spyrja ráðherra einfaldrar spurningar: Telur ráðherra að það sé hægt að útrýma fátækt og ef svo er, hvar er áætlunin? Hvernig ætlar ráðherra að hjálpa fátæku fólki og hversu lengi þarf fólk að vera fátækt að bíða eftir réttlæti, því að áætlunina er ekki að finna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, ekki í fjárlögum? Hvar er áætlunin?