154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:36]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég sé komin upp í réttum lið en ég ætla að tala um Landhelgisgæsluna. (Gripið fram í: Jú.) Ég ætlaði bara að vekja athygli á því að við í Samfylkingunni fögnum þessu og höfum verið að hvetja ríkisstjórnina til dáða í þessu máli. En ég vil vekja athygli á því að þau eru ekki sloppin. 240 milljónir eru ekki neitt neitt miðað við þá stöðu sem jú, hið umrædda sérstaka og almenna aðhald sem Landhelgisgæslan hefur verið undir undanfarin ár hefur valdið. Ég ætla að vekja athygli á því að hér var haldin sérstök umræða um stöðu Landhelgisgæslunnar og hver og einn einasti stjórnarliði kom hér og mærði þá stofnun og talaði um hvað það væri slæmt hversu illa fjármögnuð hún væri. Það vantar 750 millj. kr. að öðru óbreyttu, meira að segja með því sem kemur inn í fjáraukann, 750 millj. kr. að öðru óbreyttu til þess að Landhelgisgæslan þurfi ekki að skera niður í starfsemi sinni á næsta ári. Og þá er enginn að tala um sjúkraflutningaþyrlu á Norðausturlandi sem hér hefur mikið verið rætt um og auglýst í fjölmiðlun. Við erum að tala um óbreytta starfsemi sem verður skert.