154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[16:02]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er orka í Samfylkingunni, það eitt er víst. Ja, ef það ríkti alveg stórkostlegur ágreiningur innan þingflokksins um orkumál þá er ég ekki viss um að ég myndi fara að úttala mig mikið um hann eða leysa hann og höggva á hnútana hérna í svari við hv. þingmann, sem ég þakka engu að síður fyrir skemmtilegt andsvar. Það kom mér að sumu leyti á óvart að sjá uppsláttinn í Morgunblaðinu fyrr í vikunni: Samfylkingin styður aukna orkuöflun. Ég sé ekki alveg hvaða breyting er fólgin í þeirri yfirlýsingu að Samfylkingin styðji aukna orkuöflun. Flestar þær virkjanir sem farið hefur verið í á undanförnum árum eru virkjanir sem Samfylkingin setti á dagskrá á sínum tíma. Þær virkjanir sem núna eru á næsta leiti en hefur kannski ekki tekist að koma í gagnið á þeim hraða sem mörg okkar hefðu viljað, Hvammsvirkjun og Búrfellslundur, eru virkjunarkostir sem Samfylkingin greiddi atkvæði með. Rammaáætlun sem er sú umgjörð sem hér var sköpuð til að reyna að ná ákveðinni sátt um það hvað á að virkja og hvar á að vernda eru lög sem voru sett í stjórnartíð Samfylkingarinnar. Ég hefði viljað að Alþingi bæri meiri virðingu fyrir þessum lögum og afgreiddi rammaáætlun raunverulega á fjögurra ára fresti þannig að hlutirnir gætu gengið fram með meiri hraða. En ef einhver heldur því fram að það sé einhver stefnubreyting fólgin í því sem ég sagði í þessu ágæta Morgunblaðsviðtali þá held ég að sönnunarbyrðin liggi svolítið á þeim sem heldur því fram. Þetta er það sem ég vil segja í bili, en það er orka í Samfylkingunni.