154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[16:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Við erum hér að ræða þetta mál atvinnuveganefndar, frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, forgangsraforka, með það fyrir augum að tryggja hag heimila og smærri aðila í því ástandi sem við búum við nú á raforkumarkaði. Það er alveg ljóst að við hér í þingsal berum ábyrgð á því að tryggja heimilum, samfélagslega mikilvægum stofnunum og atvinnulífinu í heild nauðsynlega orku. En því miður er staðan sú eftir eyðimerkurgöngu ríkisstjórnarinnar í orkumálum síðustu sex ár að kerfið er uppselt. Það er einfaldlega mun meiri eftirspurn eftir orku en til er og hætt er við að svo verði á næstu árum þegar við búum líka við lagaumgjörð sem eykur að ákveðnu leyti á óvissuna um hvaða áhrif þessi staða hefur á tiltekna aðila, þar með talið heimili, og þá þarf að bregðast við.

Íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að tryggja öllum heimilum landsins raforku af ákveðnum gæðum á sanngjörnu verði sem er gegnsætt, auðveldlega samanburðarhæft og felur ekki í sér mismunun. Þessi neytendavernd á rætur að rekja til Evrópusambandsins, líkt og svo margt annað þegar kemur að réttindum neytenda. Þetta er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB. Tilskipunin gerir ráð fyrir tímabundnum markvissum ráðstöfunum til að tryggja raforkuöryggi almennra notenda þegar þess er þörf. Þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og þetta er sá veruleiki sem okkur er falið að bregðast við núna. Við erum auðvitað hvergi nærri hætt og mér liggur við að segja að við séum varla byrjuð að ræða orkumál almennt, stöðu orkumála hér á landi. Viðreisn hefur lýst yfir vilja til þess að aðstoða stjórnarflokkana við að rjúfa þessa kyrrstöðu í orkuframleiðslu og ég vona að þar hlusti menn þegar sagt er að þetta gangi ekki lengur.

En við erum að bregðast við þessu máli sem blasir við heimilum landsins í dag. Eftir áralanga kyrrstöðu er staðan alvarleg en ráðuneyti orkumála er að vinna mál sem lúta að raforkuörygginu þar sem m.a. er verið að skilgreina hlutverk og ábyrgð aðila á markaði, jafnt opinberra aðila sem einkaaðila, hvaða mælikvarðar eigi að liggja þar undir o.s.frv. Þetta skiptir auðvitað máli þegar kemur að þessum lagaramma og ég ætla að leyfa mér að segja það að ég vona, í ljósi þess að þetta mál er mikilvægt, að ríkisstjórninni verði meira úr verki á seinni hluta þessa þingvetrar en henni hefur orðið á hinum fyrri.

Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar frá því í haust er frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, þ.e. um raforkuöryggi, og þar á að leggja grunn að útfærslu á tillögum starfshópa sem hafa fjallað um raforkuöryggi þar sem m.a. er verið að tala um forgang almennra notenda. Þetta mál er í atvinnuveganefnd í þinglegri meðferð þar sem tilgangurinn er sem sagt að styrkja raforkuöryggi almennings með forgangsröðun komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika, til að mynda vegna framboðsskorts. Þegar hæstv. ráðherra orkumála, Guðlaugur Þór Þórðarson, mælti fyrir þessu máli í haust þá sagði hann í lok ræðu sinnar að hann hefði upplýsingar frá Landsvirkjun um stöðu miðlunarlóna og þar væri slík staða að líklegt væri að það þyrfti að grípa til skerðinga í kringum áramót núna ef staðan breyttist ekki og vegna þess að upplýsingar hefðu komið fram um að eftirspurn eftir grunnorku frá Landsvirkjun væri umfram framboð þá beindi hæstv. ráðherra því til atvinnuveganefndar að með hliðsjón af þessum nýju upplýsingum tæki hún til skoðunar hvort grípa þyrfti til frekari ráðstöfunar. Í kjölfarið fékk atvinnuveganefnd þessa heitu kartöflu í hendurnar, þ.e. að grípa inn í markaðinn til að tryggja öryrki heimila.

Það er ástæða til að gera athugasemdir við þetta vinnulag. Í fyrsta lagi kemur þetta mál mjög seint til þingsins, 28. nóvember. Það er gefinn örstuttur frestur til að koma með umsagnir, rétt ríflega vika sem er ríflega helmingi styttri tími en alla jafna gerist. Það bárust 25 umsagnir og innsend erindi og nefndinni gafst einfaldlega ekki tími til að vinna málið eins og oft er gert, að fara fleiri en einn hring eftir að umsagnir koma inn til að heyra í og þróa málið áfram. Þetta gerist þegar nefndir vinna mál, frekar en að það komi ítarlegra búið með dýpri greinargerð þar sem jafnvel hefur verið heyrt í ákveðnum aðilum þegar mál koma frá ráðherrum viðkomandi málaflokka. Þá hefur nefndin annars vegar ítarlegri mál í höndunum og lengri tíma alla jafna til að vinna það. Það er mjög eðlilegt að hafa þann hátt á að nefndir þingsins grípi til ákveðinna mála þegar upp koma neyðartilfelli eða brýn tilfelli með litlum fyrirvara. Þá verður að hafa þetta neyðarúrræði og við höfum fjölmörg dæmi um það. Þá er miðað að því að hafa málið eins einfalt í sniðum og hægt er. Þetta mál er alls ekki þannig. Þetta kemur engum á óvart. Það hefur verið talað af aðilum á markaði í fleiri ár um mikilvægi þess að koma raforkuöryggismálum þjóðarinnar í ásættanlegt horf. Það hefur lengi verið varað við þeirri stöðu að það gæti mögulega lekið á milli markaða við þær aðstæður sem við búum við, þ.e. lagaramminn er ekki orðinn skýr og kerfið er uppselt, þá sé raforkuöryggi heimila ekki tryggt vegna þess að hætta sé á að aðrir notendur sækist eftir þeirri orku. Þetta er ekki óvænt og þetta er ekki óviðráðanlegt en þetta er staðan, þannig að við þessu erum við að bregðast.

Það hefur komið upp í umsögnum og umfjöllun nefndarinnar að það hefði verið mjög jákvætt hefði nefndin fengið lengri tíma til að vinna þetta, kalla jafnvel eftir lögfræðiálitum frá óháðum aðilum um áhrif tiltekinna breytingartillagna, og ég ætla að fara aðeins í þetta hér. Það er kannski eðlilegt, þó svo að búið sé að fara býsna vel yfir þetta mál af hálfu framsögumanns, að nefna að málið felur í sér eins og það kemur upphaflega að ef það þurfi að grípa til skerðingar á hinum almenna markaði sem nemur um 20% af heildarmarkaði, á hinum almenna markaði eru heimili og minni fyrirtæki, þá eigi að tryggja heimilum orku. Þá geti opinberir aðilar, Orkustofnun eins og það er í upphaflega frumvarpinu og það tekur væntanlega breytingum, að gefnum ákveðnum skilyrðum þegar það er neyð, gripið inn í og sagt: Það verður að tryggja að heimili landsins fái þá orku sem þau hafa fengið hingað til, að skerðingin komi ekki niður á þeim. Þetta er í mjög einfölduðu máli það sem málið snýst um.

Það eru þrír aðilar á þessum markaði. Landsvirkjun hefur séð um helming hins almenna markaðar og síðan tvö önnur fyrirtæki, HS Orka og Orka náttúrunnar, sem hafa séð um rest í einhverjum hlutföllum sín á milli um þann helming. Í upphaflega málinu, eins og það kemur til atvinnuveganefndar frá ráðuneytinu, er gert ráð fyrir að það sé tryggt að þessi þrjú fyrirtæki selji í sömu hlutföllum, það er sem sagt litið til þess hvernig þau seldu inn á almenna markaðinn árið áður.

Atvinnuveganefnd leggur til breytingu á þessari málsgrein sem er ætlað að tryggja að vinnslufyrirtæki hafi tiltæka forgangsorku fyrir þessa aðila og hún skuli ekki vera í hlutfalli við þessa aðila, þ.e. almenna markaðinn, og það sé ekki þannig að hún eigi að vera í sama hlutfalli og selt var inn á almenna markaðinn árið áður heldur í hlutfalli við heildarframleiðslu vinnslufyrirtækisins síðastliðið ár, eða eins og segir í breytingartillögunni:

„Með því er leitast við að tryggja að öll vinnslufyrirtæki leggi nokkuð af mörkum við að tryggja raforku til þeirra hópa sem frumvarpinu er ætlað að veita vernd.“

Ég verð bara að segja eins og er að þessa setningu skil ég ekki vegna þess að það var nákvæmlega þetta sem gert var með því að tryggja að vinnslufyrirtækin skiluðu inn á almenna markaðinn til heimila og smærri fyrirtækja orku í sama hlutfalli og þau hafa gert árið áður. Þannig var verið að tryggja að þau leggðu sitt af mörkum. Með þessari breytingartillögu er sem sagt verið að breyta málinu umtalsvert frá því sem hugmyndin var þegar nefndin fékk það. Nú er staðan sú að ég ætla ekki að fullvissa áheyrendur eða fólk hér í þingsal um að ég sé alfarið á móti nokkrum slíkum inngripum en það sem ég er hins vegar að segja er: Þetta er of skammur tími fyrir nefndina til að skoða og fara ofan í saumana á afleiðingum þessarar viðbótar, þessarar umtalsverðu breytingartillögu sem kemur frá atvinnuveganefnd, það hefur sem sagt ekki gefist tími til þess. En á meðan við vitum þó að kerfið er uppselt og við vitum að með þessari breytingartillögu er Landsvirkjun í einu vetfangi, komi til skerðingar, komi til þessarar neyðarráðstöfunar, ætlað að selja ekki 50% af hinum almenna markaði orku eins og Landsvirkjun hefur gert hingað til heldur 73%, þá þarf þessi mismunur að koma einhvers staðar frá — og ég árétta að kerfið er uppselt. Eina leiðin fyrir Landsvirkjun til að bæta þessu við er þá að ganga á aðra samninga. Landsvirkjun hefur gert langtímasamninga við stórnotendur, í einhverjum þeirra eru möguleikar til skerðingar vegna óviðráðanlegra aðstæðna, verði bilun eða náttúruvá eða bara ef staðan í lónunum okkar er slík, og það er í sjálfu sér eðlilegt; ef orkan er ekki til þá er hún ekki til. En ég hygg að stórnotendur sem hafa gert samninga mörg ár fram í tímann um óskerðanlega raforku, um forgangsorku, muni gera athugasemdir við það ef Landsvirkjun stendur ekki við gerða samninga vegna þess að Landsvirkjun er að selja heimilum umfram það sem hún hefur gert hingað til. Það getur vel verið að þessu sé einfalt að svara en við fengum bara ekki tíma til að fara ofan í saumana á því. Við fengum ekki tíma til að fá lögfræðiálit á þessu máli, annað en það sem kom frá Landsvirkjun sem fann þessu allt til foráttu.

Gott og vel, segjum sem svo: Við skulum fá lögfræðiálit frá óháðum aðilum. En það er ekki til staðar og því er ég með fyrirvara á þessu máli. Ég lýsi yfir ákveðinni vanþóknun á því að vera sett í þá stöðu að fá í hendurnar sem nefndarmaður í atvinnuveganefnd mál sem á að tryggja hag heimila og smærri fyrirtækja ef og þegar kemur til skerðingar í kerfi sem er algerlega uppselt, fá síðan þessa breytingartillögu inn á síðustu dögum og fá ekki tækifæri til að kafa ofan í hana og átta mig á því hvað hún raunverulega þýðir. Ég hef um tvennt að velja: Taka mig af málinu, vera ósammála, vera á móti máli sem raunverulega er ætlað að tryggja hag heimila, eða þá vera á málinu, sýna það að ég vil, og minn flokkur vegna þess að ég tala nú fyrir hönd hans, tala fyrir hönd Viðreisnar hér, tryggja hag heimilanna. Við teljum það vera forgangsatriði en það þýðir þessi inngrip án þess að ég viti nákvæmlega og hafi fengið kost á því að átta mig á því hvað þetta raunverulega þýðir. Þess vegna er ég með þennan skriflegan fyrirvara minn á málinu sjálfu.

Ég ætla ekkert að fara nákvæmar ofan í akkúrat þetta mál. Það mun hafa sinn gang og ég hygg að við höfum ekki heyrt það síðasta um afleiðingar þess. En það eru fleiri breytingar sem mig langaði aðeins að fara ofan í hér. Það er talað um í textanum með breytingartillögunni að nefndin beini því til fjármálaráðherra, sem fer jú með hlut ríkissjóðs í Landsvirkjun, að leitað verði leiða til að stórnotendum verði gert kleift að endurselja hluta þeirrar orku sem þeir hafa samið um kaup á sé vilji til þess hjá stórnotendum og sú orka seld á gegnsæjum og skipulögðum raforkumarkaði sem hafi leyfi til þess samkvæmt 18. gr. raforkulaga. Hér hefði ég líka viljað sjá tekið aðeins vægar til orða vegna þess að eftir því sem umsagnaraðilar og gestir hafa bent á getur þessi endursala, ef illa er að verki staðið, einfaldlega unnið akkúrat öfugt við það sem ætlunin er og leitt til skerðingar á raforku. Það er kannski ekki til þess sem refirnir eru skornir í þessu tiltekna máli.

Það er líka verið að tala um að gildistími ákvæðisins verði styttur um ár, að í stað þess að gilda til 1. janúar 2026 gildi það til 1. janúar 2025. Það er breyting sem ég styð, sérstaklega í ljósi annarra breytinga sem ég hef núna farið yfir, og jafnframt að skerðingin skuli stytt um helming, úr sex mánuðum í þrjá mánuði. Í báðum tilfellum er verið að tala um ákveðið endurskoðunarákvæði þannig að hafi staðan ekki lagast þá höldum við áfram. Ég verð að segja eins og er að ég átta mig ekki nákvæmlega á því hvað það er í orkumálum þjóðarinnar sem menn bera vonir til að lagist núna á einu ári en það getur verið og vonandi hef ég rangt fyrir mér þar.

Síðan lagði ég áherslu á, og þetta eru hlutir sem við öll vorum sammála um, að það væru ekki eingöngu stofnanir málaflokksins eða ráðherra sem véluðu um þetta mál heldur væri þingið upplýst. Það er leyst með tillögu um það frá nefndinni að ráðherra skili atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd greinargerð með rökstuðningi fyrir inngripinu innan fimm virkra daga í hvert skipti sem því er beitt og sú greinargerð sé opinber. Þetta er gríðarlega mikilvægur varnagli og ég tek undir það sem Óli Björn Kárason, hv. framsögumaður málsins, fór í gegnum hér áðan, að eitt af því sem þetta mál hefur sýnt okkur þann stutta tíma sem við höfum haft tækifæri til að vinna það er að þetta er gríðarlega flókinn markaður. Það er erfitt að átta sig á heildarmyndinni á stuttum tíma og það er ákveðin upplýsingaóreiða í gangi bókstaflega og það er það sem gerist þegar illa hefur verið haldið á málum í málaflokknum. Þannig að það er mjög mikilvægt að það sé allt uppi á borðum og þetta sé mjög opinbert, eins og hægt er.

Það eru síðan önnur smærri atriði sem búið er að útskýra vel, að það sé ekki Orkustofnun sem beitir þessu heldur ráðherra að fenginni heimild Orkustofnunar og Landsnets, og það snýst bara um það sem er stjórnskipulega skynsamlegra.

Svo er kannski annað sem ekki vannst heldur fullnægjandi tími til að ræða og það eru einfaldlega áhrifin á heildina þegar verið er að kippa markaðnum úr sambandi með svona inngripi þar sem markmiðið er að verja almenning fyrir hækkun á raforkuverði. Hefði þetta mál t.d. komið frá ráðherra með ítarlegri greinargerð þá hefði, ef það hefði ekki verið tilbúið, verið færi til að skoða það hversu mikil hækkunin yrði. Hvað erum við að tala um? Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann úttekt fyrir einhverjum árum síðan um það hvað væri líklegt að stórnotendur færu hátt, hver sársaukamörk þeirra væru ef verðið færi á flot og það væri verið að bjóða, og heimilin án svona varnagla þar sem við verndum hag þeirra myndu þá væntanlega elta það verð. Hvaða upphæð erum við raunverulega að tala um? Við erum öll sammála um að við viljum tryggja hag heimilanna. Við viljum tryggja aðgengi að raforku á viðráðanlegu verði. Aðgengi er tiltölulega vel skilgreint, ekki satt, en viðráðanlegt verð öllu síður.

Alla þessa umræðu vantar bara í þetta mál og það er eðlilegt vegna þess að nefndinni var falið að flytja þetta. En það er ekkert eðlilegt við það að nefndinni hafi verið falið að flytja þetta í ljósi þess að það er a.m.k. ár ef ekki lengri tími síðan verið var að vara við þessari stöðu sem menn láta 28. nóvember eins og hafi komið sér og öllum stórkostlega á óvart, þegar flutt er framsöguerindi fyrir hönd nefndarinnar.

En hér erum við stödd og vonandi fer þetta allt á besta veg. Vonandi er hagur heimila tryggður með ekki of miklum fórnarkostnaði annarra aðila á markaði og vonandi verður kyrrstaða í orkumálum þjóðarinnar rofin sem fyrst.