154. löggjafarþing — 53. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[18:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það var góð ákvörðun hjá ríkisstjórn Íslands á sínum tíma að gerast fullur og óskoraður aðili að ETS-kerfinu vegna þess að mér er til efs að stjórnvöldum hefði nokkurn tímann dottið í hug að skora ein síns liðs á hólm þau hagsmunaöfl sem kerfið nær utan um. Álverin á Íslandi hafa einfaldlega of mikil ítök til að greiðslubótareglu umhverfisréttarins hefði verið beitt á þau nema vegna þess að íslensk stjórnvöld höfðu stuðning af samevrópsku regluverki. Nú er verið að uppfæra það regluverk í betri átt, aukinn metnaður og útvíkkað gildissvið. Þetta frumvarp er fyrsta skrefið í því og við fáum fleiri frumvörp síðar í vetur. Eins og ég lýsti í atkvæðaskýringu við 2. umræðu þá óttast ég að hér sé ekki nógu vel búið um hluti sem snerta útfærsluna. Ég óttast að samræmi við önnur lagaákvæði sé ekki nógu gott, þannig að við í þingflokki Pírata treystum okkur ekki til að styðja þetta frumvarp (Forseti hringir.) þó að við elskum ETS-kerfið — ekki misskilja mig með það.