154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

valdheimildir ríkissáttasemjara og kröfur aðila vinnumarkaðarins.

[17:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er búið að vera dálítið skrýtinn dagur en mér fannst hann byrja vel með góðum fundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar og formönnum allra stjórnmálaflokka hér á þingi þar sem við sameinuðust um að fara öll af fullum krafti í það að finna leiðir og svara spurningum Grindvíkinga af einurð og skilvirkni. Við höfum orðað það þannig eða ég vil líta á það þannig að við séum nokkurn veginn búin að mynda þjóðstjórn um verkefnið.

Síðan vil ég nota tækifærið hér og senda hæstv. matvælaráðherra hlýjar kveðjur, batakveðjur, kærleikskveðjur frá okkur öllum héðan, eins erfitt og það er að halda verkefninu áfram hér hjá okkur en það er okkar ábyrgð.

Það eru stór verkefni sem blasa við okkur og nú ekki síst staðan á vinnumarkaði þar sem aðilar vinnumarkaðarins — það virðist vera einhver snurða hlaupin á þráðinn sem fær mig til að beina fyrstu spurningunni að hæstv. ráðherra: Hvað líður m.a. þeim valdheimildum sem rætt hefur verið um að ríkissáttasemjari eigi að fá í hendurnar, sambærilegum og er á Norðurlöndunum? Við vitum að það er búið að vera nokkur ósamstaða innan ríkisstjórnar. Ekki að það sé nýlunda reyndar innan þessarar ríkisstjórnar en við sjáum að málið er ekki að komast í gegn, það er ekki verið að klára mál þannig að mig langar að spyrja: Hvað líður því að ríkisstjórnin komi frá sér málum sem treysta og byggja undir valdheimildir ríkissáttasemjara?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra varðandi þær kröfur sem hafa verið settar af hálfu vinnumarkaðarins á ríkisvaldið. Það eru um 100 milljarðar á næstu fjórum árum og við eigum eftir að sjá starfsmenn hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga líka, koma með sínar kröfur. Ég hef auðvitað ákveðnar áhyggjur af því hvernig hægt er að koma til móts við það m.a. að jafna kjör kvennastétta. Hvernig horfir hæstv. ráðherra á þessar kröfur, og hvernig mun ríkisstjórnin bregðast við þeim? Er hún tilbúin í þau verkefni? (Forseti hringir.) Það eru þessar tvær spurningar, annars vegar ríkissáttasemjari og það hvernig hún sér fram á að orðið verði við óskum aðila vinnumarkaðarins.