154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

háskólar.

24. mál
[17:56]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta mál komi fram í þinginu því að þetta er auðvitað mikilvægt þegar við erum að spá í samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu. Þetta mál er tvíþætt. Það snýr að þessu örnámi, sem manni finnst mjög spennandi að ræða um og skoða möguleikana í því, og svo auðvitað að færa reglur um prófgráður og námsframboð nær þeim viðmiðum sem við höfum skuldbundið okkur til að virða.

Það er mikilvægt að við gerum nám einstaklinga á háskólastigi samkeppnishæft og það má að mínu mati alveg klárlega skoða á fyrri stigum og fleiri skólastigum hvar við getum staðið okkur betur í alþjóðlegum samanburði, eins og bara með framhaldsskólastigið og slíkt. En þetta er mjög gott skref í átt að því að færa háskólanámið í betra horf.

Örnámið finnst mér svolítið spennandi breyting og svolítil nýbreytni, að auka sveigjanleika í framboði á háskólanámi, það gefur fólki tækifæri til þess að öðlast nýja hæfni og kannski fara þá fjölbreyttari hópar í háskóla sem er alltaf mjög jákvætt. Við viljum ekki einsleita hópa í háskólanám. Þá nefndi hæstv. ráðherra sérstaklega karlmenn en það er auðvitað bara mjög gott ef við náum að sýna fólki að það er möguleiki að koma á fót námi, þá kannski styttra námi eins og örnámi, og þá kannski opnast fleiri dyr fyrir fólki og það sér að háskólanám er kannski ekki það sem það hafði ímyndað sér áður, að það sé gerlegt. Það opnar möguleika fyrir fleiri til að fara í frekara nám. Það er alltaf mjög jákvætt því að ekki hentar öllum að fara í langt fimm ára háskólanám.

Menntakerfið okkar getur verið talsvert fornt og hefur verið það lengi og það kannski breytist ekkert í stórum stíl með þessu frumvarpi en ég tel hvert skref sem við getum tekið til að opna háskólana fyrir meiri sveigjanleika, opna skólakerfið okkar fyrir meiri sveigjanleika, vera jákvætt. Við eigum mörg tækifæri inni til að leysa ýmsa krafta úr læðingi. Það er bara jákvætt að sjá að umsagnir voru t.d. frekar jákvæðar um þetta mál og það er gott að sjá að málinu hafi verið tekið svona vel og þeim athugasemdum sem komu í samráðsferlinu svarað.