154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

endurnot opinberra upplýsinga.

35. mál
[18:32]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra enn og aftur fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Það hefur kannski ekki farið fram hjá mörgum að við í Pírötum eru mjög mikið fyrir gagnsæi, það er eitt af okkar grunngildum og sést kannski best í því hversu duglegir við Píratar erum í að senda fyrirspurnir til hinna og þessara ráðherra. Oft erum við að biðja um gögn sem ættu að vera aðgengileg og opin og ætti að vera auðvelt fyrir okkur að finna. En því miður er það oft þannig að gögnin eru ekki aðgengileg og kannski stundum í einhverjum skýrslum sem hægt er að ná í á PDF-formi en ekki er hægt að fara dýpra ofan í þau og átta sig á því t.d. hvernig hlutirnir eru ef ég horfi á þá frá annarri hlið. Þetta var einmitt hlutur sem Alþjóðabankinn uppgötvaði fyrir einum tólf árum síðan. Þeir voru mikið í því að borga fyrir úttektir á stöðu landa þegar kom að náttúruhamförum. Það voru búnar til þessar fínu skýrslur, t.d. kom út fín skýrsla nú í haust um hættur á Reykjanesi, hvar væri hætta á gosi og hvar væri hætta á hraunrennsli o.s.frv. En gallinn við svona skýrslur eru að við fáum bara textann og svo kannski einhverjar myndir, einhver gröf. En ef við erum sérfræðingar á þessu sviði og viljum kannski skoða gögnin sem liggja bak við þessi gröf þá eru þau aldrei aðgengileg. Og það sem verra var, eins og menn komust að, var að oft týndust þessi gögn. Það var fenginn einhver verktaki til að skrifa einhverja skýrslu en svo þegar hann var búinn að skrifa skýrsluna þá afhenti hann fallega PDF-skýrslu sem fór síðan á vef Alþjóðabankans en gögnin dóu þegar fartölva viðkomandi dó og enginn hafði eintak af þeim. Þannig að þetta er líka spurning um að gögnin séu til einhvers staðar þar sem hægt er að komast að þeim og hægt að vinna með þau.

Í mínu fyrra starfi í hamförunum komumst við líka að þessu í hvert skipti sem við komum inn í nýtt land. Við spurðum: Hver er staðsetning alla skóla og hvað eru mörg börn í hverjum skóla? Mikilvægur hluti til að geta vitað hvar Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og Barnaheill og fleiri ættu að vinna í því að byrja að kenna börnum, kannski í tjaldbúðum eða einhverju slíku. Nei, þau gögn voru heldur ekki til. Þau voru ekki aðgengileg. Þetta leiddi til þess að það var farið í þá vinnu víðs vegar um heim að safna þessum gögnum. Mig langar að benda hæstv. ráðherra á vinnu sem var gerð undir stjórn samræmingarmiðstöðvar Sameinuðu þjóðanna vegna þess að þar var líka ákveðið, gagnvart hinum ýmsu gagnasöfnum, hvaða upplýsingar ætti að gera aðgengilegar. Þetta er allt undir því sem heitir á ensku, með leyfi forseta, „Humanitarian Data Exchange“ eða mannúðargagnagáttin á íslensku. Þar er hægt að sjá hvernig ýmsum gögnum, sem er mikilvægt að hafa aðgengileg, hefur verið safnað.

Þegar kemur að því að opna gögn þá fékk ég, áður en ég ákvað að bjóða mig fram til þings, djúpa innsýn í það hvernig fjármálaráðuneytið horfði á opin gögn í nokkrum viðtölum við það árið 2021. Það var virkilega sorglegt í mínum huga hversu lítill skilningur var á því að gera gögn aðgengileg. Hæstv. ráðherra nefndi hér áðan opna reikninga. Já, þeir voru ekki alveg tilbúnir að setja reikninga inn vegna þess að það var svo flókið hvernig átti að losna t.d. við símanúmerin á símareikningum þannig að það væri ekki hægt að sjá í hverja viðkomandi hringdi. Það er mjög auðvelt, mjög lítið mál að sjálfvirknivæða þetta. En nei, það voru allar afsakanir notaðar til þess að safna gögnunum ekki. Það að gera þau aðgengileg öðrum var heldur ekki eitthvað sem var mikill skilningur á.

Ef við tölum um rannsóknargögnin þá langar mig bara að taka undir það sem hv. þm. Magnús Skjöld Magnússon sagði — vantar ekki eitt nafn þarna inn? Það skiptir ekki öllu máli, ég verð kannski ávíttur af forseta fyrir að gleyma millinafni. Hv. þingmaður nefndi hér áðan kynjagreiningu á gögnum. Þetta er einmitt mjög mikilvægt þegar þú ert að afpersónugera gögn, að það sé enn þá hægt að greina gögn eftir kyni en ekki bara kyni heldur líka eftir aldri, jafnvel eftir búsetu, a.m.k. einhverju af þessu. Ég myndi mæla með því að þarna yrði fræðasamfélagið tekið með í umræðunni til að segja okkur hvernig við eigum að gera gögnin aðgengileg þannig að þau séu enn þá verðmæt fyrir þá sem eru að gera rannsóknir en séu að sama skapi ekki þannig að hægt sé að rekja þau þannig að þessi gögn séu t.d. gögnin um hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur sem situr hér. Við þurfum að fara þarna milliveg og gera það á góðan máta.

Í lokin langar mig að tala um rannsóknargögn. Það hefur sýnt sig að það að veita aðgang að gögnum, landfræðilegum gögnum, náttúrufræðilegum gögnum, gögnum um veður, jarðskjálfta o.fl., er gjörsamlega að umbreyta mörgum af þeim sviðum sem við höfum í dag. Mig langaði bara að taka eitt dæmi. Í Bandaríkjunum voru veðurgögn gerð aðgengileg, bæði veðurspárnar en líka allar veðurmælingarnar. Sitt í hvoru lagi tóku bæði Google og Microsoft, ásamt sitthvorum háskólanum, þeir voru að sjálfsögðu að keppa, þessi gögn og notuðu gervigreind til að skoða veðurgögn 50 ár aftur í tímann og nýttu gervigreindina til þess að búa til veðurspár. Það var mjög athyglisvert. Fyrir þá sem ekki vita þá tekur oftast nokkra klukkutíma að gera veðurspá og þær duga þá aðeins í ákveðinn langan tíma fram í tímann og til þess þarf að nota mjög öflugar tölvur. Ein slík er einmitt hérna upp á Veðurstofu í samvinnu við, held ég, dönsku veðurstofuna. En það sem gervigreindarspárnar gerðu var að þær voru 90% fljótari að reikna og voru 70% betri í nákvæmni. Þarna erum við allt í einu að taka eitthvað og breyta því sem hafði lítið breyst þannig lagað séð, í mörg ár. Þess skal getið að núverandi útreikningar á veðri eru skrifaðir í forritunarmálinu Fortran sem lítið hefur verið notað síðastliðin 30–35 ár þannig að það kann enginn að umskrifa þetta, af því að það eru einfaldlega of fáir sem kunna að forrita þetta. En þarna var bara allt í einu kominn glænýr heimur af því að gögnin voru gerð aðgengileg.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að hugsa um. Hvað gerist t.d. ef við tökum öll jarðskjálftagögn sem til eru á Íslandi undanfarin ár, 50 ár, og skoðum þau með gervigreind? Hver veit, kannski fáum við eitthvað út úr því sem okkur hefði aldrei dottið í hug. En til þess þurfum við að opna aðgengi að þessum gögnum. Og þó svo að ég sé mjög sáttur við þetta frumvarp þá vona ég að hæstv. ráðherrar leggi í þá vinnu að opna aðgengi að gögnunum, bæði innan úr ráðuneytunum sínum og ekki síður innan þeirra stofnana sem undir þá heyra.