154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

snjallvæðing umferðarljósa í Reykjavík.

463. mál
[16:24]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir svarið og þeim sem hafa blandað sér í umræðuna. Ég verð að segja að það eru viss vonbrigði að heyra að hæstv. ráðherra hugsi ekki til mín þegar hann er fastur á rauðu ljósi eins og ég til hans. En gott og vel. Ég fullyrði það sem íbúi Reykjavíkur og sem þingmaður Reykvíkinga að Reykjavíkurborg hefur ekki staðið við fjölmargt í samgöngusáttmálanum, þar með talið að nýta nýjustu og bestu tæknilausnir og bæta umferðarljósakerfi í borginni. Hæstv. innviðaráðherra ætti ekki að láta segja sér annað og hann ætti ekki að sætta sig bara við vanefndir á þessu framkvæmdaratriði sem aðilar komu sér saman um að yrðu í forgangi. Tæknin er ekki nógu góð eins og hæstv. ráðherra hefur sjálfur orðið var við. Hún er ekki nógu snjöll og það er sannarlega til betri tækni. Hv. þm. Magnús Árni Skjöld Magnússon kom einmitt inn á það sem ég vildi sagt hafa varðandi innlegg hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur um borgarlínuna, að almenningssamgöngurnar okkar þurfa ekki síður á því að halda að snjallljósin virki í Reykjavík. Við eigum að vera með besta mögulega kerfið til þess að sjálfsögðu, bæði fyrir gangandi, hjólandi, strætisvagnana okkar og fyrir einkabílinn. Bætt umferðarljósakerfi eykur umferðaröryggi, bætir umferðarflæði, sem veitir ekki af, en það dregur líka úr mengun, sem er punktur sem gleymist mjög oft. Ég hætti ekki að koma hérna upp og krefja hæstv. innviðaráðherra um þessi svör fyrr en ég hætti að vera ein á gatnamótum í borginni á rauðu ljósi að gera æðruleysisæfingar og hvað þá þegar ég veit hversu stutt boðleiðin er orðin fyrir hæstv. ráðherra yfir í Ráðhúsið.