154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

niðurfelling persónuafsláttar lífeyris- og eftirlaunaþega sem búsettir eru erlendis.

[10:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Og gott að hún er farin að sjá ljósið, eftir á, vegna þess að það gerði hæstv. forsætisráðherra líka. Hún sagði í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í þessari viku um þetta nákvæmlega sama máli:

„En hvað varðar þetta ákvæði þá var því, eins og kunnugt er, frestað hér við afgreiðslu málsins og það var gert með þeirri skýringu að það þyrfti að kanna áhrif ákvæðisins betur og afla frekari upplýsinga um þá sem kynnu að verða fyrir áhrifum þegar ákvæðið tæki gildi. Þetta les ég upp úr nefndaráliti meiri hlutans.“

Þetta var gert vegna þess að Flokkur fólksins benti á þetta og stoppaði þetta. En ég spyr þá: Hvers vegna í ósköpunum var þetta ekki gert áður? Hvers vegna í ósköpunum gáfuð þið ykkur ekki einhverja nokkra mánuði til að upplýsa þetta fólk um það og tala við það og senda þetta inn? Af hverju er verið að negla þetta inn í bandorminn í felum, í skjóli nætur til þess eingöngu að klekkja á þessu fólki? Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Þið viðurkennið að þið ætlið að sparka fólk niður fjárhagslega (Forseti hringir.) og koma svo og klappa því eftir á og segja: Heyrðu, æ, fyrirgefðu, nú ætlum við að skoða hvers vegna við vorum að sparka þig niður.