154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

616. mál
[12:26]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar svör hér. Ég hlýt að fagna því ef til gætu komið einhverjir þeir styrkir sem gætu verið þess valdandi að fyrirtækin gætu hafið rekstur á öðrum stað. Við vitum um slík fyrirtæki; við vitum um fataverslanir og hugsanlega veitingastaði sem hafa verið starfræktir í Grindavík en hafa verið að þjónusta fleiri svæði en bara Grindavík og verið með þjónustu uppi í flugstöð og víða á þessu svæði. Mér finnst það vera gagnlegt ef svo verður. Það eina sem ég hef áhyggjur af er auðvitað það ef fyrirtæki ná að staðsetja sig utan Grindavíkur að þau komi ekki til baka. Það gæti verið áskorun fyrir samfélagið í Grindavík ef fyrirtækin koma ekki til baka. En við erum auðvitað alltaf að segja að við lifum á fordæmalausum tímum og við erum alltaf í viðbragði við því ástandi sem er greinilega síbreytilegt frá degi til dags. En öll þessi viðleitni til að standa með samfélaginu er af hinu góða og ég fagna henni.